140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[14:23]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það var fróðlegt að fylgjast með þessari umræðu hæstv. innanríkisráðherra og hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar hér áðan, hún dregur ágætlega fram mismunandi afstöðu stjórnarliða og stjórnarandstöðu til þess hvernig auka eigi þá fjármuni sem við viljum setja í úrbætur í samgöngumálum. Ég hjó sérstaklega eftir því við upphaf þessarar umræðu, þegar ráðherra mælti fyrir þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér liggur fyrir, að hann komst þannig að orði að það væri bjart yfir þessari áætlun. Þar sem stutt er liðið frá jólum kom upp í hugann barnasálmurinn:

Bjart er yfir Betlehem

blikar jólastjarna,

stjarnan mín og stjarnan þín,

stjarnan allra barna.

Mér datt í hug að það plagg sem hæstv. ráðherra væri að leggja fram væri einhvers konar jólagjöf til landsmanna. Hún væri þá heldur rýr þetta árið og kann vel að vera að svo sé.

Ég tel langan veg því frá að um sé að ræða bjarta samgönguáætlun, eða tillögu til samgönguáætlunar, til ársins 2022. Því miður er það ekki svo. Það kann vel að vera að það villi manni sýn að á mörgum undanförnum árum hafa verið gríðarlegar samgöngubætur í landinu, byggt hefur verið upp á mörgum sviðum samgangna. Ef við horfum þó ekki væri nema tvo til þrjá áratugi aftur í tímann og berum samgöngukerfi landsins í dag saman við það sem þá var hafa orðið gríðarlegar breytingar til hagsbóta fyrir alla. Enda er það svo, ef litið er til þess framkvæmdafjár sem er á ferðinni í þeirri tillögu sem liggur fyrir til umræðu, að það er mat þeirra sem til þekkja að framkvæmdafé sé hér í sögulegu lágmarki í í það minnsta hátt í 20 ár, og þá skulum við ræða áætlunina út frá þeim veruleika.

Ég tek undir þau sjónarmið, sem komu fram í máli hæstv. ráðherra hér áðan, að við það verk sem ráðuneytinu er falið, í því að leggja fram þá áætlun sem hér er fram komin, þurfi að taka mið af þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru. Um það er enginn ágreiningur í sjálfu sér, ágreiningurinn snýst miklu frekar um það hvort við getum á einhvern hátt aukið ráðstöfunarfé ríkissjóðs til að takast á við þau brýnu verkefni sem menn vilja halda fram á sviði samgöngumála. Ég dreg því ekkert í efa að ráðherra gerir eins vel og hann frekast getur innan þess ramma sem honum er settur, um það þarf ekki að deila.

Ef við horfum til þeirra þátta sem ber hæst í umræðu um samgöngumál um þessar mundir, og hefur kannski verið um langan tíma, eru það svona í grunninn einkum fjögur verkefni. Það er bygging flugstöðvar. Nú á síðari árum hefur komið fram sterk krafa um nýja samgönguleið til Vestmannaeyja, þar er um að ræða Landeyjahöfn en ekki síður hafa verið uppi umræður um byggingu nýs farkosts, þ.e. annarrar ferju. Uppi hafa verið hugmyndir um breikkanir og stækkanir Suðurlandsvegar og vega í nágrenni við höfuðborgina og öll þekkjum við síðan umræðuna um jarðgöngin blessuð.

Ef maður skoðar þessi stóru mál í þeirri þingsályktunartillögu sem fyrir liggur er, eins og komið hefur fram í umræðunni í dag, jarðgöngunum og áformunum þar skotið aftur á síðari hluta áætlunarinnar, til áranna 2015–2018. Þar eru inni, ef ég man rétt, rúmir 10 milljarðar til þeirra verka. Ég sá ekki úrbætur á stofnbrautum að og frá höfuðborgarsvæðinu í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, á grunni þeirra hugmynda sem hæst hefur borið í umræðunni.

Það er greinargerð og í rauninni athugasemd með þingsályktunartillögunni varðandi byggingu nýrrar ferju til Vestmannaeyja. Ekki eru merktir neinir fjármunir til þeirrar byggingar þannig að það má líta þannig á að sú áætlaða framkvæmd sé utan þeirrar áætlunar í krónum talið sem við ræðum hér í dag. Ný bygging fyrir miðstöð innanlandsflugsins, sem leysa á af hólmi það kofaskrifli sem stendur í dag á Reykjavíkurflugvelli, er löngu tímabær. En þegar maður horfir til þess hvernig fjármagna á þá byggingu sést að það á að gera með notendagjöldum farþega sem fara um völlinn. Þá bætist sá kostnaður væntanlega ofan á þær hækkanir sem lagðar hafa verið á þá sem nota innanlandsflugið í dag og við höfum fengið smjörþefinn af því í umræðunni að að óbreyttu muni það þýða mikinn samdrátt og miklar breytingar á innanlandsfluginu frá því sem nú er. Ég tel fulla þörf á því að skoða þau áhrif sem notendagjöld kynnu að hafa á flugstarfsemina ef og þegar til þess kæmi að þarna yrði eitthvað gert að gagni í stað þess að ræða þetta ár eftir ár. Sú flugstöð sem þarna er er þjóðinni til skammar fyrir þann aðbúnað sem farþegum og starfsmönnum, sem vinna við þennan mikilvæga þátt íslensks þjóðlífs, er boðið upp á.

Þingsályktunartillagan byggir á stefnumótun sem sett er fram í fimm köflum og flest eru þau markmið á þá lund að hægt er að taka undir þau öll. Eðli málsins samkvæmt verður flókið að fullnusta þau á grunni þeirra fjárveitinga sem fyrir liggja í áætluninni. Ef maður horfir til þessa er stofnkostnaðarþátturinn í þessu verki þannig að fluginu er ætlaður rétt rúmur milljarður á hverju tímabili þingsályktunartillögunnar allt til 2022. Til hafnanna er áætlað að verja um 2–3 milljörðum á hverju áætlunartímabili. Þetta eru tiltölulega lágar fjárhæðir og ég minnist þess að á fyrsta tímabilinu fer bróðurparturinn, allt að helmingur, til Landeyjahafnar. Loks eru það vegir, samgöngubætur á landi, sem taka til sín um 21 milljarð á fyrsta áætlunartímabilinu 2011–2014 og síðan 33 milljarða á næstu þremur árum og er komið upp í 43 milljarða á síðasta hluta tímabilsins, þ.e. á árinu 2019–2022.

Þegar maður horfir til þessa — og ég vil nefna það sérstaklega að hér er mikið rætt um greiðar samgöngur og tilteknar í nokkrum bókstafsliðum frá a til l þær áherslur sem ætlað er að ná því markmiði að samgöngur séu sem greiðastar um allt land. Fyrsti bókstafsliðurinn sem lýtur að því að ná markmiði um greiðar samgöngur fjallar um að grunnnet samgangna á landi, í lofti, á sjó verði byggt upp með hliðsjón af sóknaráætlun landshluta og tillögum um forgangsröðun framkvæmda byggðum á félagshagfræðilegri greiningu.

Ég vil staldra sérstaklega við þennan bókstafslið, einfaldlega vegna þess að reynslan af þeim tillögum sem landshlutasamtökin hafa sett fram, komið áleiðis til yfirvalda varðandi sóknaráætlunina, er sú að þær áherslur hafa ekki gengið eftir. Ég veit til dæmis til þess að á Austurlandi var niðurröðun forgangsatriða á allt annan veg af hálfu landshlutasamtakanna en birtist síðan í þeirri fjárlagagerð sem við stóðum að og afgreiddum fyrir áramótin.

Ég vil líka nefna atriði sem ætlað er að styrkja almenningssamgöngur milli þéttbýlisstaða og innan þéttbýlis, að þær verði efldar með þeirri áherslu að landshlutasamtök sveitarfélaga taki yfir almenningssamgöngur á landi sem hingað til hafa verið ríkisstyrktar. Það er í sjálfu sér gott og gilt að reyna að koma einhverju skikki á þann þátt en ég hef uppi efasemdir um það hvernig þetta á að ganga til lengri tíma því að staða landshlutasamtakanna til rekstrarverkefna á sér mjög hæpna stoð í lögum. Ef upp koma fjárhagserfiðleikar, sem alþekktir eru við rekstur samgöngumannvirkja, tel ég ástæðu til að staldra við og gaumgæfa með hvaða hætti landshlutasamtökin ætla að hafa þetta verkefni með höndum.

Ég vil enn fremur nefna hér, í tengslum við greiðar samgöngur, þá áherslu sem er í þingsályktunartillögunni og lýtur að fluginu. Þar kemur enn og aftur fram að gera eigi félagshagfræðilega úttekt á framtíð áætlunarflugs innan lands og reyna eigi að tryggja að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt. Ég átti satt að segja von á því að þarna yrði tekið fastar til orða og menn tækju í þessari þingsályktunartillögu af skarið um það hvernig þeir ætluðu að skipa innanlandsfluginu, þeim mikilvæga þætti sem þar er um að ræða.

Ég vil, af því að það gengur ört á tíma minn hér, forseti, nefna undir lok ræðu minnar atriði sem lýtur að öryggi í samgöngumálum, sem ætlað er að marka stefnu á sviði flugöryggis. Sérstaklega vil ég nefna þann þátt sem lýtur að markmiði áætlunar um öryggi sjófarenda og geta þess í því samhengi að full ástæða er til að rækta það starf sem Slysavarnaskóli sjómanna hefur innt af hendi á vegum Landsbjargar. Ég er þess fullviss að það starf sem þar fer fram — mjög faglegt, gott, öflugt — á stærsta einstakan þáttinn í því að fækka banaslysum til sjós og slysum til sjós á síðari árum. Landsbjörgu og Slysavarnaskóla sjómanna ber að þakka það en því miður sé ég þess hvergi stað að á þá ágætu starfsemi sé minnst í þeirri þingsályktunartillögu um samgöngumál sem liggur fyrir.

Rétt aðeins varðandi markmiðin um jákvæða byggðaþróun. Þar eru þau listuð upp í fjórum töluliðum og enn og aftur er minnst á það að forgangsröðunin við það verkefni eigi að byggja á sóknaráætluninni. Ég ítreka þá skoðun mína að ef um þá forgangsröðun á að vera sátt á þeim grunni sem unnið hefur verið eftir verður að taka meira tillit til þeirra sjónarmiða sem koma frá landshlutunum en gert hefur verið, ekkert endilega á sviði samgöngumála heldur í öðrum þáttum ríkisstarfseminnar. Þar sem ég veit til þess að fyrirheit varðandi sóknaráætlunina og forgangsröðun og áherslur heimamanna hafa verið svikin, þá má það alls ekki gerast á sviði samgöngumála, sérstaklega þegar haft er í huga hversu takmörkuðu fjármagni er úr að spila á því sviði.

Ég vil nefna að Reykjavíkurhöfn er hér sett inn í samgönguáætlun í texta sem aðalinnflutningshöfn og útflutningshöfn landsins. Ég dreg þetta orðið í efa með vísan til Austfjarðahafna þar sem um 35–40% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar streyma í gegn. Ég get hins vegar alveg trúað því að innflutningurinn sé mestur um Reykjavíkurhöfn, það kann vel að vera, ég hef ekki nákvæma greiningu á því. En það gleymist oft í umræðunni um þetta að þó svo að við viljum hafa hlutina eins og þeir hafa verið þá hafa áherslur sem betur fer breyst í þá veru að þetta gengur eftir.

Ég vil líka nefna það sérstaklega að það eru áætlanir um að fljúga inn og út úr landinu annars staðar frá en um Keflavík eða Reykjavík, og hér hef ég til dæmis hvergi rekist á áherslur norðanmanna um beint flug að og frá Akureyri. Ég legg áherslu á að þann þátt verður að skoða þó ekki væri nema vegna þess að stjórnvöld hafa gefið fyrirheit um að standa með heimamönnum að því að markaðssetja svæðið og þennan flugvöll með það í huga að geta lengt ferðamannatímann og flogið mönnum að utan til landsins um Akureyrarvöll. Ég tel fulla ástæðu til að hv. samgöngunefnd taki það mál til gaumgæfilegrar skoðunar þegar hún fær þetta skjal til umfjöllunar. Ég beini þeim tilmælum til þeirra embættismanna sem vinna með nefndinni að því verki að taka þennan þátt einnig til athugunar.