140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[14:43]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ekki skal standa á mér að taka undir þau sjónarmið að æskilegt sé að móta stefnu í þessum efnum og marka í áætlun sem þessari. Ég tek heils hugar undir það og bendi hv. þingmanni á að sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir er á ábyrgð stjórnarmeirihlutans sem hv. þingmaður tilheyrir. Ég hvet hann eindregið til góðra verka innan þess sama meiri hluta, að koma sjónarmiðum sínum þar á framfæri.

Ég er þó eindregið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé áður en til einhverrar slíkrar ákvörðunar kemur að unnin sé sú vinna sem greinir frá í þingsályktunartillögunni í e-lið í kafla 1.2, Markmiðum um hagkvæmar samgöngur, þ.e. að gerð sé einhver úttekt á þessum þætti. Vissulega hefur tækninni fleygt fram og eflaust gefur það okkur önnur og ný tækifæri.

Varðandi Vaðlaheiðargöngin þakka ég þann hug sem kemur fram í máli hv. þingmanns gagnvart því verkefni. Ég vænti þess hins vegar að þær niðurstöður sem IFS Greining vann fyrir fjármálaráðuneytið, verði til þess að sefa þá ókyrrð sem um verkefnið hefur verið og geti sannfært menn um að grunnurinn undir verkefninu standi eins og hann er lagður út, þ.e. að fjármögnunin verði byggð á veggjöldum. Það er verkefni fjármálaráðuneytisins að finna út úr því með hvaða hætti það verði best gert að ganga frá lausum endum varðandi fjármögnun á félaginu sjálfu og fjármögnun á framkvæmdatímanum. Að því gefnu að það gangi upp tel ég einboðið að ekki þurfi að reyna á þann góða stuðning sem hv. þingmaður hét verkefninu úr ræðustóli áðan og fyrir þann stuðning er þakkað.