140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þarf á engri vorkunnsemi að halda. (Gripið fram í: Nú?) Aðeins til að slá á þessa hrikalegu depurð og bölsýni sem er að leggjast yfir hv. þingmann vil ég segja að margt gott hefur verið að gerast í samgöngumálum á Vestfjörðum á undanförnum árum. Þar hefur í raun orðið bylting. Á tíunda áratugnum var borað í gegnum mörg fjöll og Vestfjarðagöng urðu til sem tengdu Ísafjörð, Suðureyri og Flateyri. Það var bylting. Á síðasta ári voru Bolungarvíkurgöngin opnuð, gríðarleg samgöngubót. Í fyrrnefndu göngin voru á þessu ári settar 150 milljónir til að uppfæra öryggisstaðla þar. Í fyrsta skipti í fyrra var hægt að keyra á malbiki alla leið frá Reykjavík til Ísafjarðar, í því er fólgin bylting. Svo er ný brú á Mjóafjörð og vegabætur víða.

Hins vegar er á sunnanverðum fjörðunum og síðan inni á sjálfum kjálkanum úrbóta þörf og við gerum ráð fyrir því í áætlunum okkar hvernig við ætlum að standa þar að verki. Við gerum líka ráð fyrir því að setja hlutfallslega meira fjármagn í þennan hluta landsins en nokkurn annan. Ég rakti áðan hvernig við ætlum að setja 1 þús. milljónir í samgöngubætur á Vestfjarðaveginum á þessu ári, annan milljarð á næsta og síðan koma þúsund milljónir til viðbótar á þriðja árinu. Ég get nefnt fjölmörg önnur dæmi.

Ef hv. þingmaður er farinn að sofa illa yfir þessu plaggi hvet ég hann til að taka gleði sína að nýju.