140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir þingmaðurinn aðeins að hressast og ég fagna því. Staðreyndin er sú að við erum með takmarkað fjármagn til ráðstöfunar en gerum ráð fyrir því að eftir 2014, á árinu 2015, munum við geta aukið framlag til samgöngumála um 3% í samræmi við hagvaxtarspár. Til þess standa vonir okkar.

Ef úr rætist í þjóðarpyngjunni og ástandið batnar fyrr munum við að sjálfsögðu fá aukið fé til vegaframkvæmda og samgöngubóta. En áherslurnar sem hv. þingmaður setur hér fram eru nákvæmlega þær sömu og ég hef lagt áherslu á í þessari áætlun og í mínum málflutningi. Þar byggi ég fyrst og fremst á álitsgerðum sérfræðinga Vegagerðarinnar. Þegar þeir eru spurðir hvernig við verjum fjármunum best til að tryggja atvinnu hafa þeir sagt: Með framkvæmdum sem víðast til að auka öryggi. Þeir hafa til dæmis bent á að smíði nýrrar brúar yfir Ölfusá rétt fyrir austan Selfoss komi til með að skapa mörgu fólki störf og við erum að reyna að flýta þeirri framkvæmd.

Ég nefni þetta vegna þess að ég ber mikla virðingu fyrir þessu sjónarmiði hv. þingmanns, að okkur beri að horfa til úrbóta í samgöngumálum með hliðsjón af atvinnustarfsemi. Það eigum við að gera, við eigum að hafa þetta þrennt að leiðarljósi, öryggið, samgöngubætur á þeim svæðum sem búa við lakastan kost og atvinnumálin. Þá gildir að margt smátt gerir eitt stórt, margar hendur og mörg tæki fá vinnu. Ég ber virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður setur fram og fagna því innilega að mér sýnist sólin aðeins vera að rísa á lofti í hugskoti hv. (Forseti hringir.) þingmanns.