140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:24]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal svara þessu. Það getur orðið erfitt fyrir láglaunafjölskyldu að reka bíl ef skattar á eldsneyti fara hækkandi eða ef lagðir eru á vegtollar, skattar í landinu eru hækkaðir eða ef dregur úr kaupmættinum á einhvern hátt. Þá erum við komin að kjarna málsins.

Hv. þingmaður talar um skilaboð og þau skilaboð sem eigi að gefa með þessu þingmáli. (BJJ: Og bjartsýni.) Ég held að fólk vilji helst fá raunsæi og að því sé sagt satt. Það er enginn vandi að setja fram plagg útblásið af óskhyggju, það er enginn vandi. Ég hef engar efasemdir um það að ef okkur tækist að afla einhverra tuga milljarða til að spýta inn í framkvæmdir þá væri það hið besta mál og þá mundu hjólin snúast hraðar og við fengjum peninga inn í þjóðarpyngjuna, það mundum við gera.

En spurningin er þá þessi: Hvernig ætlum við að bera okkur að til að hefja slíka vegferð? Ætlum við að taka þá fjármuni að láni, ég vil spyrja hv. þingmann um það, til að hefja slíka vegferð? Ætlum við að taka þá fjármuni að láni eða ætlum við að hækka skatta á eldsneyti eða vegtolla eða almenna skatta, vegna þess að hv. þingmaður var ein hrópandi mótsögn í málflutningi sínum. (BJJ: Nei.) Jú, vegna þess að hann sagði okkur áðan að hann ætlaði að koma hjólum atvinnulífsins í gang meðal annars með ívilnandi sköttum, með því að setja hvata inn í skattkerfið og ívilna í sköttum. Ekki hækka þá, hann talaði fyrir því.

Nú spyr ég hv. þingmann sem tók líka í framhjáhlaupi niðurskurðinn í velferðarþjónustunni: Hvernig væri að gera okkur (Forseti hringir.) grein fyrir því hvernig hv. þingmaður ætlar að afla þessa fjár?