140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta er allt óskaplega auðvelt, að skapa mikinn arð og búa til mörg störf. Það vill nú svo til að við höfum í minningunni ríkisstjórn sem reyndi einmitt þetta þegar allt var á blússandi uppleið og flokkurinn sem var í þeirri ríkisstjórn heitir Framsóknarflokkur. Hann fór í Kárahnjúkavirkjun, við vorum að fá nýja skýrslu um arðsemi af þeirri framkvæmd (Gripið fram í.) og hvernig hún hefur leikið þjóðarbúið. Þetta er bara staðreynd.

Varðandi ívilnanir og breytingar og umbyltingar þá var það Framsóknarflokkurinn sem fór með bankamálin. Við munum þegar bankarnir voru einkavæddir, voru seldir eða gefnir og höfnuðu hjá aðilum — við skulum ekki fara mjög náið út í þá sálma og út í þann vef allan. Verið er að fjalla um það hjá sérstökum saksóknara og um ýmsa þætti þeirra mála og afleiðingar af því. Ef ég héti Framsóknarflokkur mundi ég sýna af mér nokkra hógværð núna þegar verið væri að tala um sýnikennslu í efnahagsmálum.