140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:30]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt vandamálið sem blasir við okkur í dag, að þegar menn verða rökþrota er farið aftur til ársins 2003. Það er engin framtíðarsýn. Og það skal velta Framsóknarflokknum upp úr því að hafa verið í ríkisstjórn ásamt Sjálfstæðisflokknum í 12 ár. Það er alveg rétt. Það er margt þar sem betur hefði mátt fara en margt gott var gert. En þegar hæstv. ráðherra kemur hingað upp og talar niður þá atvinnuuppbyggingu sem átti sér stað á Austfjörðum undir forustu Framsóknarflokksins þá finnst mér hæstv. ráðherra halla réttu máli.

Ég vil minna hæstv. ráðherra á að á Reyðarfirði, á Mjóeyri, vinna 800 manns. Það fólk hefur þó atvinnu, það fólk er ekki að flytja úr landi, 800 manns. Ég vil minna á, þrátt fyrir öll þau ofboðslegu mistök sem Framsóknarflokkurinn á að hafa gert þegar kemur að rekstri Landsvirkjunar, að það fyrirtæki er hundruð milljarða kr. virði þrátt fyrir alla vitleysuna. Hvers lags málflutningur er þetta?

Það segir sig náttúrlega sjálft þegar hæstv. ráðherra fellur í þann fúla pytt að geta ekki tekið undir þær tillögur sem við framsóknarmenn höfum ítrekað lagt fram og með ítarlegum hætti, en liggja sofandi í þingnefndum af því að meiri hlutinn vill ekki taka þær út, það er náttúrlega ljóður á málflutningi hæstv. ráðherra að hann skuli haga máli sínu á þennan hátt. Hæstv. ráðherra veit að Framsóknarflokkurinn hefur staðið í lappirnar til dæmis í Icesave-málinu og ég veit ekki betur en hann hafi hælt Framsóknarflokknum í því. Ég hef ekki heyrt hann tala niður hugmyndir okkar í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar fyrr en núna, einmitt þegar framsóknarmenn koma hingað upp hver á fætur öðrum með hugmyndir og tillögur um að styðja við hæstv. ráðherra í að auka við verklegar framkvæmdir í landinu. Mér þykir hæstv. ráðherra hafa farið verulega aftur í málflutningi sínum.