140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra að einhvers staðar eru fleiri aurar til. Það væri gaman að vita ef hæstv. ráðherra er með það í kollinum hversu miklir fjármunir eru einhvers staðar óskiptir, hvort sem það er akkúrat í malbiki eða ekki, hvað er fyrir utan áætlunina, og væri fróðlegt að heyra það.

Það er eitt atriði sem ég ætla enn að nefna og er mjög mikilvægt, það er flugið. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur verið mjög áhugasamur um að viðhalda innanlandsfluginu. Ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um að í morgun kom bréf sem snertir flug út á land, flug til Sauðárkróks, þar sem bent var á að sjúklingur kæmist ekki heim til sín þar sem hann er ekki fær um að fara í bíl en hefði getað flogið en er hins vegar fastur núna á mölinni vegna þess að ekki er flogið þangað lengur. Það eru svona hlutir sem skipta máli. Það eru svona hlutir sem þeir sem tala fyrir því að hætta að fljúga á þennan stað, ég veit að hæstv. ráðherra er ekki að því, þurfa að hafa í huga líka.

Annað sem mér finnst nokkuð spennandi til framtíðar litið og menn ættu að fara að vinna að er að huga að varaflugvelli fyrir Akureyrarflugvöll. Ég held að Akureyrarflugvöllur eigi að vaxa sem flugvöllur í ferðaþjónustu og ýmsu öðru. Ég held að það gæti verið skynsamlegt að kanna hvað það kostaði að gera t.d. flugvöllinn á Sauðárkróki sem varaflugvöll fyrir Akureyri þar sem eingöngu er klukkutíma og tuttugu mínútna akstur eða eitthvað slíkt þar á milli.

Það sem ég ætlaði að nefna og hæstv. ráðherra talaði um eru almenningssamgöngur á vegum landshlutasamtakanna. Það er mjög áhugavert að landshlutasamtök skuli vera með tilraunaverkefni, ég man nú ekki hvar það var, á Suðurnesjum líklega, en fjármunirnir sem þarna eru eru ekki hugsaðir fyrir það. Þeir eru eingöngu hugsaðir fyrir höfuðborgarsvæðið og svæðið í kring. Ég man ekki til að hafa séð einhvers staðar fjármuni (Forseti hringir.) ef t.d. Fjórðungssamband Vestfirðinga vill fara í eflingu almenningssamgangna á því svæði.