140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[15:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, samhengið er að höfuðborgarsvæðið lætur ýmsar stórframkvæmdir frá sér á móti þannig að við verjum peningum af almennu samgöngufé til þessara almenningssamgangna. Annars staðar verjum við því í stórframkvæmdir.

Hv. þingmaður spurði hvað væri um háar upphæðir að tefla undir liðnum Tengivegir malbik sem ég nefndi áðan. Það munu vera um 0,5 milljarðar á ári sem þar koma til sögunnar.

Varðandi flugið þá er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er áhyggjuefni en ég er að vinna samkvæmt löngu mótaðri áætlun um þróun flugvallanna. Á sínum tíma var hugsunin sú að með Héðinsfjarðargöngum yrði hætt að styrkja flug til Sauðárkróks. Það er sú hugmynd og sú stefnumótun sem Alþingi mótaði á sínum tíma og við höfum unnið samkvæmt þeirri reglu.

Ég deili hins vegar alveg áhyggjum hv. þingmanns. Hvað þetta snertir þurfum við auðvitað að horfa á aðstæður og hvernig þær breytast og þá þarf að horfa til þessa með tilliti til hvað er að gerast á sjúkrahúsinu, t.d. varðandi endurhæfingu og annað slíkt. Í ljósi þessa var sett inn viðbótarfjármagn til flugsins í fjárlögin, núna í lokaafgreiðslu, en síðan við nánari skoðun er langt í frá að það dugi til að halda megi uppi farþegafluginu. Þingið og fjárveitingavaldið þarf að skoða hvað á gera í því. Það er sameiginlegt verkefni að skoða það.

Þetta er stefnan sem við höfum unnið (Forseti hringir.) samkvæmt og ég vinn enn samkvæmt. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns og hef (Forseti hringir.) þess vegna verið að hitta menn og kortleggja þessa stöðu.