140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:08]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi svör. Ég er að sjálfsögðu sammála þeirri áherslu hæstv. ráðherra að við eigum að hlusta á heimamenn. En stundum hefur verið sagt við okkur þingmenn svæðisins að þegar togstreita sé hjá heimamönnum verðum við að taka af skarið. Við þurfum kannski að hugsa svolítið um það hvort við viljum leggja áherslu á til dæmis að hafa vegalengdirnar styttri eða að vegurinn liggi með ströndinni. Mér finnst það í raun og veru ekki vera málið heldur að til sé vegur sem heitir þjóðvegur 1 og því spyr ég: Hefur hann eitthvert annað gildi en aðrir vegir, eigum við að leggja áherslu á að hann sé ávallt í besta hugsanlegu standi, að hann sé þjónustaður vel, hann sé öruggur, skiptir það máli?

Varðandi jarðgangagerðina þá legg ég áherslu á, af því að mér heyrðist hæstv. ráðherra tala um að hann vildi að til væri sérstök áætlun í jarðgangagerð og jafnvel sérstakir fjármunir, að ég er einmitt að tala um það, að ávallt verði veitt sérstakt fjármagn til að halda áfram að grafa jarðgöng á Íslandi til að tryggja umferðaröryggi, til að tryggja styttingu vegalengda, til að tryggja að hægt sé að flytja örugglega bæði menn og farm. Nú langar mig til að spyrja að því: Skildi ég ekki hæstv. ráðherra þannig að hann væri á því að hér ætti að vera sérstök jarðgangaáætlun og sérstakt fjármagn þar inni?