140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, hv. þingmaður skildi mig alveg rétt að jarðgöng, og þar með einnig í þeim pakka ferja til Vestfjarða, á að byggja á sérstakri áætlun. Þannig höfum við gert það. Héðinsfjarðargöngin, Vestfjarðagöngin, öll þessi göng eru utan áætlunar, hinnar hefðbundnu áætlunar. Vandinn er sá að sjóðurinn sem gjarnan mætti vera til er tómur. Það er vandinn sem við stöndum frammi fyrir. En ég ítreka að ef okkur tekst að afla fjár og ef fjárveitingavaldið er tilbúið að láta peninga af hendi rakna og gera grein fyrir því hvernig þeirra fjármuna er aflað — við þurfum að ná í þessa peninga líka, ætlum við að taka þá að láni, ætlum við að hækka skatta eða hvað það er sem menn vilja? Við verðum að ræða það í því samhengi — ef slíkt tækist skrifa ég upp á það sem hv. þingmaður hefur sagt fyrr og nú um gildi Norðfjarðarganga.

Varðandi hitt, að taka af skarið, þá getur auðvitað komið upp sú staða að hið miðstýrða ákvörðunarvald þurfi að taka af skarið og það er iðulega gert. En ef meiningar eru mjög miklar, eins og á Vestfjörðum svo dæmi sé tekið, þegar menn ganga út af fundi í mótmælaskyni vegna tillagna sem koma frá hinu miðstýrða ákvörðunarvaldi, þá tekur maður náttúrlega slíkt til greina. Að sjálfsögðu gerir maður það, á sama hátt og við hlustum á það þegar 42 þúsund vegfarendur á suðvesturhorninu mótmæla vegasköttum. Að sjálfsögðu hlustum við á þetta. Við þurfum að vera opin fyrir þeim straumum sem eru í samfélaginu og hverju fólk óskar eftir. Ég vil alla vega hlusta á slíkt.

Varðandi hringveginn og gildi hans, nei, sá vegur hefur ekki neina (Forseti hringir.) umframþýðingu, það er fyrst og fremst númer, (Forseti hringir.) en spurningin er almennt um vegakerfið, hvernig fólk kemst á milli og auðvitað horfum við til (Forseti hringir.) öryggissjónarmiða þar líka.