140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Það er tvennt sem mig langar að staldra við í ræðu hennar. Annars vegar að hv. þingmaður vakti réttilega athygli á hversu álögurnar og gjaldtakan í fluginu er orðin há. Af þessu hef ég ásamt mörgum öðrum miklar áhyggjur og hv. þingmaður greinilega líka.

Undanfarnar vikur hafa verið í fréttum þær hömlulausu álögur sem búið er að leggja á flugið og það gefur augaleið og við skiljum það öll að slíkt endar með einum eða öðrum hætti alltaf í verðlaginu á flugmiðunum. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki ástæðu til að skoða þetta sérstaklega í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur undanfarið hjá forustumönnum flugfélaganna þar sem þeir hafa miklar áhyggjur af því að þetta verði til þess að draga úr notkun flugs.

Hins vegar vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér um að flugið sé almenningssamgöngur á ákveðnum stöðum á landsbyggðinni, því að eins og hv. þingmaður vék að í ræðu sinni er það oft eina leiðin sem er fær.

Mig langar enn fremur að spyrja hv. þingmann um annað sem hún kom inn á í sinni ræðu sem eru Norðfjarðargöng. Hún kom réttilega inn á það eins og hún hefur gert áður hvaða áhrif það hefur fyrir heilbrigðisþjónustuna að samgöngur séu tryggar. Hv. þingmaður sagði að íbúarnir væru tilbúnir að greiða ákveðið gjald en það gefur augaleið eins og bent var á í ræðunni að sú umferð mun að sjálfsögðu ekki duga til að halda uppi þeirri framkvæmd. Því langar mig til að spyrja hvort hv. þingmaður viti til þess að sveitarstjórnarmenn á þessu svæði hafi skoðað hversu stór þáttur þetta gæti verið í rekstri og byggingu ganganna.