140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:16]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Eins og kom fram í ræðu minni hef ég ákveðnar áhyggjur af verðlagi dýrustu farseðla og ég er alveg sammála því að við verðum að skoða það sérstaklega hvort þetta hefur þau áhrif að í raun og veru sé verið að eyðileggja þetta góða form á almenningssamgöngum sem við sem búum langt frá höfuðborgarsvæðinu viljum mjög gjarnan nýta okkur. Mér finnst samt að við verðum að gera okkur grein fyrir því að auðvitað nota fyrirtækin stundum tækifærið þegar álögur eru hækkaðar og lauma jafnvel talsvert meiri hækkunum inn í verð flugfarseðla og auðvitað þarf að horfa á þetta verð dálítið í því ljósi. En ég tel að við verðum að gæta þess að gætt sé ákveðins hófs í þeim gjöldum sem við leggjum á innanlandsflugið til að það verði sá góði valkostur sem við þurfum að eiga.

Í sambandi við Norðfjarðargöng þá held ég að ekki sé búið að gera einhvers konar módel yfir það hvernig hægt væri að sjá þetta nákvæmlega fyrir sér með veggjöldum en ég veit að sveitarstjórnarmenn og stóru fyrirtækin í Fjarðabyggð hafa sest niður og rætt þessi mál. Það getur vel verið, þó að ég viti ekki af því, að til sé einhvers konar módel en að minnsta kosti er þetta eitthvað sem hefur verið talsvert í umræðunni, sérstaklega í Fjarðabyggð þar sem eru stór og mikil fyrirtæki sem eru mjög háð sjúkrahúsinu og háð þeim vinnukrafti sem býr hinum megin við Oddsskarðið. Þetta hefur því verið rætt án þess að ég viti nákvæmlega hversu formlega það er.