140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði að auðvitað verður að fylgjast mjög vel með því þegar álögur eru hækkaðar á fyrirtækin í landinu að þau nýti ekki tækifærið og velti hækkuninni að stórum hluta og jafnvel meiri hluta út í verðlagið, hvort heldur það eru flugmiðar eða hvað sem það er. Í þessu tilfelli er það svo. En það kom fram í máli framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands að það sem hefði gert það að verkum að þeir hefðu ekki hækkað innanlandsflugið jafnmikið og þeir hefðu í raun og veru þurft að gera, miðað við þær breytingar sem urðu á álögunum, var hversu vel gekk hjá þeim með Grænlandsflugið. Ég held að það sé svo í þessu tilfelli, því miður, að enn frekari hækkanir séu yfirvofandi einmitt út af öllum þessum álögum á innanlandsflugið og það er mjög bagalegt. Ég er sammála hv. þingmanni um að við verðum að taka það til sérstakrar skoðunar og fyrr en seinna. Það er mjög alvarlegt mál ef þetta er gert með þeim hætti. Almennar samgöngur fyrir íbúa á þessum stöðum verða að vera þannig að fólk komist á milli svæða.

Aðeins út af því sem hv. þingmaður fjallaði um og svarar líka í seinna andsvari, Norðfjarðargöngin, þá verðum við að taka upp heiðarlega umræðu um þau því að mörg önnur göng bíða eða að minnsta kosti nokkur. Auðvitað höfum við öll sterkar skoðanir á því hver forgangsröðunin á þeim á að vera. Í samgönguáætluninni er sérfjárveiting til gangagerðar og menn bítast um að forgangsröðunina á göngunum að sjálfsögðu. Ég held, vegna þess sem hv. þingmaður sagði, að það væri fróðlegt að vita hvort heimamenn séu komnir eitthvað lengra í þessu máli, því að það kom líka fram hjá forsvarsmönnum fyrirtækjanna á þessu svæði að þetta væri forsendubrestur miðað við það sem upp var sett. Þeir telja göngin vera öryggi eins og hv. þingmaður nefndi gagnvart heilbrigðisþjónustunni og hafi verið forsenda (Forseti hringir.) þess að atvinnuuppbygging varð á svæðinu.