140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú samgönguáætlun, bæði fjögurra ára áætlun og tólf ára áætlun, þ.e. það sem kallað er hin styttri og hin lengri.

Ég vil vekja athygli á því í upphafi máls míns að við erum að ræða samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022. Það vill svo til, alla vega hjá mér, að árið 2011 er liðið sem segir okkur að sjálfsögðu að þetta plagg kemur of seint inn í þingið. En um það var talað þegar samgönguáætlun var samþykkt síðast, árið 2010, að hún kæmi inn á haustmánuðum 2010 og yrði kláruð á því þingi. En það er kannski ekki aðalvandamálið við þá áætlun sem hér er.

Það sjá allir sem vilja sjá og gera sér grein fyrir því eftir að hafa lesið þetta plagg að vandamálið er fyrst og fremst of lítið fjármagn til skiptanna. Svo getum við haft skiptar skoðanir og deildar meiningar um hvar við teljum brýnustu verkefnin vera og það fer oft eftir því í hvaða kjördæmi þingmenn eru og er þá ekki eingöngu hægt að flokka það undir kjördæmapot heldur kannski sérþekkingu viðkomandi þingmanna á því svæði.

Ég vil gera örstutt að umtalsefni í upphafi ræðu minnar hvernig þessi samgönguáætlun er unnin og ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég las þetta plagg. Nú ætla ég að færa rök fyrir því. Þegar samgönguáætlun var samþykkt í júní 2010 taldi ég að gerst hefði nokkuð merkilegt að því leyti að hér var unnið þverpólitískt um það hvernig skipta mætti þeim litlu fjármunum sem voru áætlaðir til samgöngumála. Við það lögðu margir á sig mikla vinnu, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar. Eitt af því sem gerði það að verkum að samgönguáætlun var samþykkt með einungis tveimur mótatkvæðum, það voru tvö atkvæði á móti og sex sátu hjá og ég held að það sé dálítið „afrek“, ein af forsendunum sem lágu að baki því að það var gert — ég átti þá sæti í samgöngunefnd og vek athygli á því að það kom aðeins eitt nefndarálit frá samgöngunefnd og í því nefndaráliti stendur, virðulegi forseti, texti sem gerði það að verkum að þetta varð niðurstaða þingsins. Mig langar að lesa orðrétt upp úr þessu sameiginlega nefndaráliti hv. samgöngunefndar, það kom ekkert minnihlutaálit, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá telur nefndin rétt að taka fram að það sé ákveðið óréttlæti fólgið í því að þau verkefni í samgöngumálum sem flýtt var í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar árið 2007 og enn er ólokið skuli ekki vera í samgönguáætlun 2009–2012. Þannig hafa byggðir sem stefnt var að því að viðhalda og styrkja með flýtingu samgönguframkvæmda ekki einungis þurft að taka á sig samdráttinn sem almennt hefur orðið í íslensku efnahags- og atvinnulífi, heldur einnig samdrátt vegna skerðingar aflaheimilda í þorskveiði síðustu ár. Því er mikilvægt“ — og ég undirstrika þetta, virðulegi forseti — „að þær framkvæmdir sem hér um ræðir verði í forgangi á 12 ára áætlun í samgöngumálum sem væntanleg er á næstu mánuðum.“

Þetta er úr nefndaráliti samgöngunefndar árið 2010 sem var einróma samþykkt í samgöngunefnd. Greidd voru atkvæði um þá samgönguáætlun sem samþykkt var á vordögum 2010. Hér er um að ræða tvö verkefni: Annars vegar veginn um Fróðárheiði og hins vegar veginn um Öxi. Eins og ég sagði í upphafi máls míns var þetta ein af lykilforsendunum fyrir því að það náðist sátt og samstaða um þetta og þingið ályktaði sem svo að taka þyrfti tillit til þessa við endurskoðun á samgönguáætlun. Einungis tveir greiddu atkvæði á móti og sex sátu hjá. Allir aðrir sem voru viðstaddir greiddu atkvæði með þvert á flokka.

Þetta voru skilaboðin frá þinginu og það vill svo til, virðulegi forseti, að nánast allir þeir þingmenn sem samþykktu þetta sitja á Alþingi enn. En hvað gerir svo samgönguráð með þessa niðurstöðu? Ég verð að kalla eftir því hjá hæstv. innanríkisráðherra hvort hann geti upplýst mig um hvort þeir aðilar sem eiga sæti í samgönguráði hafi yfir höfuð lesið nefndarálit samgöngunefndar áður en þeir komu með nýja samgönguáætlun. Það er hreint með ólíkindum að ekkert tillit sé tekið til þessara hluta við endurskoðun á þeirri samgönguáætlun sem nú er lögð fram. Ég trúi því ekki, og hæstv. innanríkisráðherra leiðréttir það þá á eftir, að hæstv. ráðherra hafi gefið fyrirskipun um það til samgönguráðs að fara ekki eftir niðurstöðu Alþingis þar sem komu fram skýr skilaboð um það óréttlæti sem fólgið sé í því að af þeim mótvægisaðgerðum sem farið var í af hálfu ríkisvaldsins sé tveimur verkefnum ólokið og ekkert tekið tillit til þess, ekki einu sinni inni, bara ekki neitt til ársins 2022. Þess vegna hlýt ég að kalla eftir því hvaða áhrif það hefur til að mynda á afgreiðslu í málum eins og samgönguáætlun þegar þverpólitísk samstaða næst um hvernig eigi að afgreiða mál ef þau eru síðan afgreidd í samgönguráði og lögð fram af hæstv. ráðherra með þessum hætti. Ég er afskaplega ósáttur við þessi vinnubrögð. Ef þetta er niðurstaðan, að ekki sé tekið tillit til þess hvernig Alþingi afgreiðir málin, er ég mjög hugsi yfir því hvernig maður á að fjalla um og taka þátt í umræðu um þá samgönguáætlun sem við ræðum nú.

Ég vil þá koma aðeins inn á það sem kemur fram í þessari samgönguáætlun sem snýr að sunnanverðum Vestfjörðum. Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, og ég tek undir það og það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði og hann hefur sagt það hér alveg frá því að hann tók við þessu ráðherraembætti að hann vilji leggja sérstaka áherslu á að klára þennan veg. Síðan rakti hæstv. ráðherra í andsvörum og ræðu áðan að þeim tillögum sem hann lagði fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum, að fara svokallaða hálsa, hefur verið hafnað. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess, af því að ég veit að hann er að vinna með heimamönnum og öðrum aðilum að því að finna varanlega lausn á því hvernig hægt er að fara með láglendisveg um þetta svæði, brýna hann til þeirra verka að reyna að ná niðurstöðu í því máli. Ég vil líka kalla eftir því, eins og ég hef gert áður, og biðja hæstv. innanríkisráðherra að fylgjast mjög vandlega með hæstv. umhverfisráðherra að því leyti til að hæstv. umhverfisráðherra verði ekki í millitíðinni búinn að friðlýsa Teigsskóg. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því og ég geri mér ekki grein fyrir því hvort verkefnið yrði þá slegið endanlega út af borðinu. Ég bið hæstv. innanríkisráðherra að fylgjast sérstaklega með þessu máli, því að það hefur komið beiðni inn í ráðuneytið og það hefur tekið í þá beiðni með þeim hætti að ég hef áhyggjur af, þannig að hæstv. umhverfisráðherra fari ekki að friðlýsa skóginn fyrr en menn hafi komist að niðurstöðu um hvernig eigi að gera þetta. Það er í rauninni þyngra en tárum taki að þurfa að ræða þessar hríslur þarna í Teigsskógi, að verið sé að verðleggja hann á marga, marga milljarða til að fara fram hjá þessu vitleysisrugli.

Ekki ætla ég að tala meira um það, ég mun gera það á öðrum stigum, en ég ítreka beiðni mína til hæstv. innanríkisráðherra að koma þessu máli í þann farveg að það verði byggður láglendisvegur. Það er ekki vandamál, það er margfalt ódýrara og skynsamlegra en það þarf hins vegar að yfirstíga þær hindranir sem klárlega eru fyrir hendi og ég geri ekki lítið úr. Það er víst nóg af öfgasinnuðu fólki sem vill hafa þetta óbreytt. Þegar verið er að ryðja burt hrauni og skógum á suðvesturhorninu þar sem massinn býr andar það ekki eða segir neitt en ef það er gert úti á landsbyggðinni þar sem fáir búa þá veðrast þetta fólk allt upp.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem var rætt hér og hæstv. ráðherra reyndi að leiðrétta áðan því það var ákveðin villa í umræðunni þar sem sumir hv. þingmenn töldu að ekki væri veitt neitt fé í tengivegina. Það er klárlega vegna þess að það er óskipt fé þar inni. Ég vil þó spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega að því vegna þess að einmitt þeir malarvegir sem enn eru óuppbyggðir eru mismunandi eftir kjördæmum. Ég ætla að vitna aftur í það sem gerðist í samgöngunefnd vorið 2010. Þá var sagt eða niðurstaða þingsins var sú að því skyldi ráðstafað í samræmi við vegalengdir á þeim vegum sem væru ókláraðir. Þá var niðurstaðan sú og það var skoðað og fengnar upplýsingar frá Vegagerðinni. Ég tel mjög mikilvægt að sú skipting haldi áfram, þ.e. sá pottur sem var áætlaður í uppbyggingu á tengivegum. Hvort heldur þeir eru í Borgarfirði eða á Norðurlandi vestra eða hvar sem er er þetta mjög mikilvægt. Í Norðvesturkjördæmi eru 56% þessara vega. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki alveg öruggt að hugsunin sé sú að þetta verði gert áfram með þeim hætti að þessu sé skipt niður á landshlutana miðað við þau verkefni sem þar eru eftir?

Síðan fagna ég því sem kemur hér fram að meira fé er sett til viðhalds. Ég tel mjög mikilvægt að við tökum heiðarlega umræðu um það og við gerðum það í samgöngunefnd. Það kemur reyndar fram í niðurstöðu nefndarálitsins að það sé mjög mikilvægt að setja meira fé til viðhalds en gert hefur verið. Við sjáum að vegirnir eru að drabbast niður á mörgum stöðum og það er mjög mikilvægt að það sé gert og hefði jafnvel þurft að setja enn meira fé í viðhaldið til að vegirnir verði ekki stórhættulegir. Það er hægt að setja þetta í það samhengi að menn geta trassað að halda vegunum við í ákveðinn tíma en síðan kemur það fyrr en seinna í bakið á mönnum ef það er gert.

Ég vil nefna tvennt til viðbótar því að tíminn líður hratt eins og sagt er. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það sem hefur aðeins verið rætt í þinginu í þessari umræðu og það er í sambandi við snjómokstursreglur í Árneshreppi. Það var rætt við forustumenn sveitarfélagsins um þetta og Ríkisútvarpið hefur verið með þetta til umfjöllunar á undanförnum vikum, bæði síðustu viku og þarsíðustu. Það var búið að tala um það og var rætt við fyrrverandi samgönguráðherra að endurskoða þessar reglur. Þær eru á þann veg að hætt er að moka frá 6. janúar fram undir páska, í 75 daga ef ég man rétt, og þá er ekki mokað neitt. Það er bara ákveðið að moka ekki neitt nema sveitarfélagið geti tekið þátt í helmingnum og við vitum hvernig það er. Þetta sveitarfélag hefur hugsanlega ekki fjármuni til að gera það mjög oft. Og það er ekki krafa frá íbúum þessa svæðis að það sé verið að moka þegar það er ekki skynsamlegt eða ekki skilyrði til að gera það. Það þarf að endurskoða reglur þannig að ef skynsamlegt er að moka þá þurfi náttúrlega að moka. Það er ekki hægt að dagsetja það að mikill snjór sé á þessum tíma frekar en öðrum. Það þarf að vera meira svigrúm í snjómokstursreglunum. Þetta hefur verið rætt áður í þinginu og það virðist sem það komi engin almennileg niðurstaða í þetta mál, en það hlýtur að vera hægt að gera þetta þannig að þegar snjór er lítill og mikil hláka ætti að vera hægt að moka veginn. Íbúarnir gera ekki kröfu um að það sé mokað við þau skilyrði þegar það er ekki skynsamlegt.

Mig langar aðeins til viðbótar að nefna eitt, sem er bara vinsamleg ábending í lok ræðu minnar, það er í sambandi við öryggismál sjómanna. Það er sagt á bls. 5 að meginmarkmiðið sé að draga úr bæði slysum og dauðaslysum til sjós og þar er nefnd ákveðin pósentutala. Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, ég veit ekki hvort ég er eitthvað sérvitur en þessi texti truflar mig mjög mikið, að það skuli stefnt að því að fækka dauðaslysum á sjó um 5% á árabilinu 2011–2014 eða í 1,2 dauðaslys á hvert þúsund starfandi sjómanna. Mér finnst þetta ekki eiga að vera í textanum. Þetta er svona góðfúsleg ábending til nefndarinnar, því að textinn sem kemur þar á eftir er mjög fínn að mínu mati. Það væri líka gott að taka þá umræðu þó að við getum það ekki í þessari umræðu. Við vitum öll hvað þarf til að tryggja öryggi sjómanna, ekki bara þá miklu og góðu fræðslu sem hefur verið núna, auðvitað þarf að tryggja Landhelgisgæslunni fjármuni þannig að hún geti sinnt öryggismálum sjómanna með þeim hætti sem fiskveiðiþjóðinni Íslandi er sómi að og er í raun og veru skylda að gera. Það er ekki þannig í dag. Þetta er svona góðfúsleg ábending.

Það eru örfá atriði sem ég næ ekki að fara yfir, virðulegi forseti, en ég mun nýta þann stutta tíma sem ég hef í seinni ræðu minni til að gera það.