140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja að mín skoðun á því kemur þessu máli afskaplega lítið við vegna þess að ég horfi til lagaumhverfisins, ég horfi til þess sem álitsgjafar um umhverfismál í stjórnsýslunni segja. Ég horfi til hraða framkvæmda og það var aftur ástæðan fyrir því að ég lagði til hálsaleiðina, hún væri ódýrust, hagkvæmust og hröðust. Ef við ætluðum að fara í Teigsskógarævintýrið er mjög óvíst að það mundi yfirleitt ná fram að ganga lögum samkvæmt. (Gripið fram í.) En eitt er alveg víst, það mundi taka afar langan tíma vegna þess að ég mun aldrei ganga gegn umhverfismati. Þess vegna er þessi valkostur út úr myndinni að mínum dómi og hálsaleiðin er það líka vegna andstöðu við málið, ekki vegna þess að ég sé endilega persónulega á móti því, alls ekki. Ég ætla ekki að fara nánar í mínar persónulegu skoðanir en þetta er staða málsins.

Þess vegna eru þeir kostir sem við erum að skoða göng undir Hjallaháls, síðan einhver annar valkostur á láglendisleið og þá þverun fjarða sem heimamenn hafa talað mjög ákaft fyrir. Ég vil skoða það og Vegagerðin hefur líka lagt það til.

Síðan varðandi hagkvæmni í ráðstöfun fjármuna hef ég hrifist mjög af því hve meðvituð Vegagerðin og sérfræðingar hennar eru um nákvæmlega þetta atriði, hvernig hægt er að bæta vegasamgöngur í landinu og bæta vegina á sem hagkvæmastan hátt með tilliti til þeirra fjármuna sem til ráðstöfunar eru.