140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:57]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru allt saman ágæt rök og það er ekkert einhlítt í þessu hvað er rétt hvað varðar forgangsröðun í stórframkvæmdum á borð við jarðgöng.

Það sem menn hafa horft til varðandi Norðfjarðargöng er sú atvinnuþróun sem hefur orðið á svæðinu. Sameining sveitarfélaga verður ekki að veruleika fyrr en þau tengjast með jarðgöngum á sama hátt og Vestfjarðagöngin ollu straumhvörfum fyrir þau byggðarlög á Vestfjörðum og þau sveitarfélög sem þar tengdust. Héðinsfjarðargöng gerðu hið sama á Norðurlandi. Það er það sem menn horfa til varðandi Norðfjarðargöng. Það er ekki bara öryggissjónarmið heldur líka hitt að það er verið að gera gerlegt að sameina í reynd sveitarfélög sem eru það í orði en ekki fullkomlega á borði. Það er hugsunin þar að baki.

Það er ekkert einhlítt í þessu og það er mjög skiljanlegt að menn setji fram slík sjónarmið varðandi Dýrafjarðargöng. Ég ítreka það sem ég hef margoft sagt áður að Vestfirðirnir eru það svæði sem hefur verið afskipt. Sem betur fer hefur verið gerð mikil bragarbót varðandi Djúpið og samgöngur milli Ísafjarðar og Reykjavíkur voru í fyrsta sinn í fyrra malbikaðar alla leið. Þetta er bylting. Þetta er hugsunin þarna að baki.

Varðandi ferðamálin þá horfa menn til sjónarmiða og áætlunargerðar sem ferðamálayfirvöld hafa sett (Forseti hringir.) á blað. Þegar t.d. er horft til Dettifossvegar er jafnframt verið að horfa til ábendinga frá ferðaþjónustunni og það gerum við, Vegagerðin og samgönguyfirvöld, líka á öðrum svæðum.