140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:02]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara enn og aftur benda á ástæður þess að hlutfallslega mesta fjármagnið fer á Vestfirði þegar kemur að vegaframkvæmdum. Það er af því að þar eru lengstu vegir landsins. Eins og þessir firðir eru gjöfulir þarf að leggja ansi marga vegi þar þannig að það er alveg skiljanlegt að mesta fjármagnið fari núna á Vestfirði.

Við höfum líka setið eftir svo áratugum skiptir þegar kemur að uppbyggingu vega. Það er því erfitt að heyra sagt: Þið fáið mest núna. Við erum eini landsfjórðungurinn sem situr enn uppi með alla þessa malarvegi og þessi stóru fjöll sem á eftir að fara í gegnum. Það er því alveg skiljanlegt, en auðvitað ekki sök núverandi innanríkisráðherra, að þannig er komið fyrir okkur Vestfirðingum. Það er ekki hans sök enda er hann nýsestur í stól innanríkisráðherra og hefur sýnt okkur skilning og við vitum að við getum treyst á hann í þessu máli. Það þarf ekki að fá hann til að liðsinna okkur heldur fjárveitingavaldið fyrst og fremst.

Þetta er spurning um forgangsröðun og þess vegna bið ég aðra þingmenn um að sýna okkur skilning í þessu máli eins og við sýnum öðrum framkvæmdum í öðrum landshlutum skilning þegar það á við.