140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:03]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og get tekið undir margt sem kom fram í máli hennar.

Ég vil sérstaklega taka undir eitt sem hv. þingmaður kom inn á þegar hún talaði um uppbyggingu í ferðaþjónustunni, eins og hún orðaði það, og nefndi sérstaklega Látrabjarg sem er mikill segull á sunnanverðum Vestfjörðum. Nú stendur einmitt til og er í undirbúningi stofnun þjóðgarðs, Látrabjargsþjóðgarðs. Vegna starfa sinna og reynslu sem sveitarstjórnarmaður og þeirrar atvinnu sem hún stundar langar mig að spyrja hv. þingmann um það sem hún kom reyndar inn á í máli sínu: Hversu mikilvægt telur hún að það liggi á að koma þeim vegi sem liggur út á Látrabjarg í lag? Hann er með þeim hætti eins og hv. þingmaður nefndi að varla er hægt að fara hann yfir sumarið nema á vel útbúnum bílum.

Þá vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hún teldi rétt þar sem verið er að byggja upp þjóðgarðana, eins og í þessu tilfelli á Látrabjargi, að eyrnamerkja sérstaklega vegafé í þau verkefni. Það hefur stundum verið gert í vegáætlunum, þá hafa menn sett sérstakt fjármagn til að klára uppbyggingu innan þjóðgarða og friðlýstra svæða. Hver er skoðun hv. þingmanns á því?

Síðan langar mig aðeins að koma inn á framkvæmdir á sunnanverðum Vestfjörðum. Hv. þingmaður sagði í lok andsvars síns við hæstv. innanríkisráðherra að fjármagnið hefði kannski staðið þeim framkvæmdum fyrir þrifum á undanförnum árum og áratugum og loksins þegar var komið fjármagn í verkið varð annað til að stoppa það eins og hv. þingmanni er kunnugt um. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki alveg skýrt í hennar huga að mikilvægasta verkefnið sem bíður okkur á Vestfjörðum sé einmitt að klára veginn um sunnanverða Vestfirði.