140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:06]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja þar sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson endaði þegar hann spurði mig hvort ég væri ekki sammála því að vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum væri forgangsmál í vegagerð á Vestfjörðum. Jú, svo sannarlega enda hafa samtök sveitarfélaga á Vestfjörðum margoft ályktað um forgangsröðun í samgöngumálum. Vegagerð um sunnanverða Vestfirði er númer eitt, tvö og þrjú. Það er enginn ágreiningur um þau mál enda hefur sú veglagning kannski stoppað á öðru en fjármagni. Ég nefndi það ekkert sérstaklega í máli mínu áður af því að veglagningin þar er í farvegi eins og við vitum.

Ég vildi hins vegar taka jarðgangagerð sérstaklega fram af því að þar geta þingmenn haft áhrif á forgangsröðunina, en veglagning á sunnanverðum Vestfjörðum er ekki eingöngu í höndum þingmanna heldur hafa umhverfissamtök og Hæstiréttur og fleiri aðrir komið þar að máli.

Svo spyr hv. þingmaður mig hvað mér finnist um að vegaframkvæmdir fari í þjóðgarðauppbyggingu. Þjóðgarðar bera það með sér að þeir eru merkilegir og það verður að gera fólki kleift að komast þangað og nýta þá. Eins og með þjóðgarðinn á Snæfellsnesi má sjá að þar eru mjög góðar samgöngur, a.m.k. á mælikvarða okkar Vestfirðinga. Ég held að vegaframkvæmdir við Látrabjarg gætu vel átt heima þar, að afmarkað yrði vegafé með þjóðgarðshugmyndum. Mér finnst það vera góð hugmynd.