140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Gríðarlega mikið hefur verið gert í vegamálum á síðustu árum. Það hefur í rauninni orðið gjörbreyting á vegakerfi okkar, enda sjáum við það, ég fór lauslega yfir það áðan við undirbúning þessarar ræðu og mér sýnist að um 200 milljörðum kr. hafi verið varið til vegamála á árunum 2000–2008. Ég ætla að fullyrða að þar hafi hverri krónu verið mjög vel varið. Við höfum séð stökkbreytingu í vegagerðinni víðs vegar um landið. Það hefur gert það að verkum að innviðirnir hafa treyst í samfélagi okkar og það mun ásamt öðru gera okkur betur fært að takast á við þá erfiðleika sem við glímum við núna.

En þversögnin í þessu máli er sú að um leið og við ljúkum stórum áföngum verður okkur ljóst hvaða möguleika þeir skapa og það verður okkur hvatning til að gera betur á mörgum öðrum sviðum og víðar á landinu. Þess vegna lýkur vegagerð í raun aldrei. Þegar við erum búnir að ná einum áfanga tökum við til við þann næsta og framfarirnar og kröfur samtímans verða stöðugt meiri. Það er bara eðlilegt og við þurfum að reyna að bregðast við því eins skynsamlega og okkur er framast unnt.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að þær vegáætlanir og samgönguáætlanir sem hér væru kynntar lýstu bjartsýni. Ég get ekki deilt þeirri skoðun með hæstv. ráðherra. Mér finnst nefnilega að þessar tillögur eins og þær eru lagðar fram lýsi fremur tálsýn en bjartsýni vegna þess að þær eru mjög fátæklegar fyrri hluta samgönguáætlunartímabilsins frá árinu 2011–2022, en hins vegar má segja sem svo að það er fremur bætt í þegar líður á það tímabil.

Við þurfum ekki annað en að velta fyrir okkur þeirri stöðu sem verið hefur undanfarin ár og alveg sérstaklega núna upp á síðkastið. Sú staða er ekki mjög björguleg. Við sjáum að verkefnunum sem verktakarnir hafa verið að sinna er sem óðast að ljúka. Ég heyri það frá verktökum að þeir standa frammi fyrir því nú þegar í byrjun þorra að fyrirtæki þeirra eru meira og minna verkefnalaus. Þau eru að leggja upp laupana, þau eru að verða gjaldþrota, þau selja tækin sín úr landi og þá getur komið upp sú staða, sem er líka mikið áhyggjuefni, að þau fyrirtæki sem hafa burði og bolmagn til að bjóða í verkefni verði svo fá að það skapar hættu á fákeppni. Við þurfum ekki annað en fara inn á forsíðu heimasíðu Vegagerðarinnar þar sem getur að líta hægra megin á síðunni, sem við þekkjum vel, lista yfir þau útboð sem fyrirhuguð eru og þau útboð sem farið hafa fram. Það er hörmulegt til þess að vita að fram kemur á heimasíðunni í dag að ekki hefur verið boðið út eitt einasta verkefni frá því í októberlok á síðasta ári og engin ný útboð eru kynnt til sögunnar. Við vitum að vísu að fram undan er, vonandi innan mjög skamms tíma, stórt útboð á Vestfjarðavegi, en þetta lýsir engu að síður þeirri grafalvarlegu stöðu sem nú er uppi. Ég held þess vegna að ekki sé hægt að taka undir það með hæstv. ráðherra að samgönguáætlunin lýsi bjartsýni, hún gerir það því miður ekki.

Þessi samgönguáætlun er mjög afturhlaðin. Það sjáum við t.d. á því að þegar við skoðun einstök samgönguáætlunartímabil í vegagerðinni, er á yfirstandandi samgönguáætlunartímabili 2011–2014 gert ráð fyrir framlög til vegagerðar upp á 21,5 milljarða kr. Á næsta vegáætlunartímabili er það 33 milljarðar, þá er gert ráð fyrir 50% hækkun. Það er út af fyrir sig ágætt, en síðan eru menn orðnir mjög bjartsýnir þegar fer að nálgast árið 2020. Þá sjá menn allt í einu forsendur fyrir því að hækka töluna sem núna er 21,5 milljarðar upp í 44 milljarða. Þá er búið að tvöfalda upphæðina og það er tálsýnin í málinu. Það er ekki bjartsýnin í málinu heldur tálsýnin. Þarna höfum við marga fugla í skógi en ekki nokkurn í hendi og það er hið alvarlega í þessu máli.

Ég ætla ekki eingöngu að vera neikvæður. Ég fagna þeirri áherslu sem er í hinni nýju samgönguáætlun sem lýtur að vegamálunum, þar er þó verið að leggja til nokkra aukningu í tengivegina, 380 millj. kr. á síðasta ári en 500 millj. kr. út þetta vegáætlunartímabil til ársins 2015. Það er yfirleitt góð viðleitni þó að það sé samt of lítið. Við vitum að þar er gríðarlega mikil þörf fyrir vegabætur, ekki síst í Norðvesturkjördæmi þar sem er um helmingur tengiveganna sem á eftir að vinna í og er því augljóst að helmingurinn af fjármununum hlýtur þess vegna að fara í það kjördæmi.

Ég sagði að það væru mikil vonbrigði að sjá á þessu vegáætlunartímabili hversu lágar tölurnar væru til framkvæmdanna. Ég get tekið sem dæmi Norðvesturkjördæmi, sem ég þekki best. Á þessu tímabili sjáum við tillöguna í framkvæmdalistanum, eina brú á Vesturlandi. Í gamla Norðurlandskjördæmi vestra sé ég enga tölu yfir vegagerðina þar. Það kann að breytast og vonandi breytist það en þannig er það í því plaggi sem hér er um að ræða.

Í þessari umræðu er talsvert búið að ræða um jarðgöng enda er það að vonum. Því miður skynja ég togstreitu um það hvar næstu jarðgöng eigi að vera. Við sem erum í Norðvesturkjördæmi leggjum áherslu á Dýrafjarðargöngin, í Norðausturkjördæmi leggja menn áherslu á Oddsskarðsgöngin. Í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir er búið að leggja áherslu á að fyrst verði farið í Oddsskarðsgöngin og síðan í Dýrafjarðargöngin. Síðan geta menn endalaust rifist um það. En hver er vandinn? Vandinn er sá að við höfum haft algert framkvæmdastopp í jarðgöngum alveg frá því að Bolungarvíkurgöngum var lokið og þau tekin í notkun í september 2010. Ég vil rifja það upp að sú stefna hafði verið mótuð að reyna að hafa jarðgangagerð sífellt undir m.a. til að tryggja að sú þekking sem væri til staðar í landinu varðveittist, flyttist ekki úr landi, og á bjartsýnistímunum vorum við meira að segja komin upp í það að vera með tvenn jarðgöng undir í einu. Þeir tímar eru örugglega ekki í nánd að við verðum aftur í þeirri stöðu en það er hörmulegt til þess að vita að næstu jarðgöng sem boðin verða út, kannski fyrir utan Vaðlaheiðargöng sem enginn veit reyndar hvort verða að veruleika, samkvæmt þessari þingsályktunartillögu verða boðin út í fyrsta lagi árið 2015. Þá líða átta ár á milli útboða. Það er vandinn sem við glímum við núna.

Ég er auðvitað ekki svo óraunsær að ég geri mér ekki grein fyrir því að við urðum að láta undan síga varðandi vegagerð þegar við urðum fyrir því áfalli sem allir þekkja og við höfum margoft rætt. En engu að síður er gríðarlega brýnt að við reynum að spýta í varðandi vegamálin vegna þess að þörfin kallar á það alls staðar á landinu, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni, og mætti þar nefna mjög margt. Ég fagna því að sjálfsögðu að hæstv. innanríkisráðherra hefur fylgt því mjög fast eftir sem hann hefur sagt að ætti að vera áherslan í vegamálunum á næstu árum og það er að leggja áherslu á uppbyggingu vegamála á Vestfjörðum. Þörfin þar er svo himinhrópandi að það blasir við öllum og ég hygg að það sé ágreiningslítið í samfélaginu í dag að þannig eigi það að vera. Engu að síður og það segir heilmikla sögu um stöðuna í samgönguáætluninni og hvernig hún er lögð upp að þegar við skoðun aðaláhersluatriðin í samgöngumálum á Vestfjörðum, sem er uppbygging Vestfjarðavegar 60 á sunnanverðum Vestfjörðum, sýnist mér staðan vera sú að þeirri vegagerð muni ekki ljúka fyrr en á síðasta vegáætlunartímabilinu 2019–2022. Þar er gert ráð fyrir einum 5,6 milljörðum kr. til vegamálanna á því svæði og er alveg ljóst að samkvæmt þeirri tillögu sem liggur fyrir munum við ekki nærri því ná að ljúka framkvæmdinni á öðru vegáætlunartímabili og það er auðvitað óviðunandi. Við hljótum að verða að skoða málin í því sambandi.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni og hefur sagt það áður að hann vilji ekki fara svokallaða hálsaleið og ég viðurkenni að það er þá niðurstaðan og ég fagna henni út af fyrir sig. En hæstv. ráðherra hefur líka sagt, og það er ég reyndar ekki jafnánægður með, að hann vilji ekki fara B-leiðina sem er leiðin fyrir ofan hinn umdeilda Teigsskóg. En látum það vera, það er niðurstaðan. Hvaða kosti höfum við þá? Þá eru kostirnir þessir: B-leiðin er talin munu kosta 6,1 milljarð kr. samkvæmt svari sem hæstv. ráðherra gaf við fyrirspurn hv. þm. Kristjáns L. Möllers í haust. Þeir kostir aðrir sem uppi eru og hæstv. ráðherra hefur sérstaklega nefnt eru þessir jarðgangakostir með jarðgangagerð undir Hjallaháls og leið yfir Djúpafjörð o.s.frv. Sú leið mundi hins vegar kosta 9,6 milljarða kr. Þarna munar 3,5 milljörðum kr. Að vísu ber þar í milli þverunin á Þorskafirði. Leggjum það til hliðar, en engu að síður höfum við séð verðmiðann sem búið er að setja á Teigsskóg. Dýr mundi þá Hafliði allur, 3,5 milljarður kr. sem menn áætla verðið á því að verja þennan umdeilda skóg. Þannig er málið. Í ljósi þeirra fjárveitinga sem ætlaðar eru til vegamála þrátt fyrir 50% aukningu á næsta vegáætlunartímabili óttast ég það að sú leið, sú ákvörðun sem er svona miklu dýrari muni tefja enn þá frekar bráðnauðsynlega og lífsnauðsynlega uppbyggingu vegamála á sunnanverðum Vestfjörðum. En sú er staða málsins og við verðum þá bara að horfast í augu við það og reyna að vinna úr henni eins vel og mögulegt er. Þetta er hinn pólitíski veruleiki sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Ég vil segja eitt til viðbótar. Á sínum tíma urðum við að draga saman seglin í vegamálum. Allt í lagi, við áttum okkur á því. Það þýðir að ýmsar framkvæmdir sem við vorum búnir að setja inn á vegáætlun miðað við þær aðstæður sem þá voru uppi í samfélaginu, hafa farið úr samgönguáætlun, út úr vegáætluninni. Nú erum við hins vegar að búa til nýja samgönguáætlun og þá hefði ég talið eðlilegt, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á, að þær framkvæmdir sem skornar voru niður eftir efnahagshrunið 2008 ættu að öllu óbreyttu greiða leið núna inn í vegáætlun á næsta vegáætlunartímabili. Það á við t.d. um Fróðárheiðina, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi, og líka Veiðileysuháls norður í Árneshreppi. Þar er staðan sú að ekki er hægt að moka yfir vetrarmánuðina af því að vegurinn er svo lélegur og illa uppbyggður. Síðan er svarið það að við ætlum ekki að fara í þá framkvæmd sem þó var búið að eyrnamerkja fé fyrir árin 2009 og 2010. Við ætlum ekki að fara í þá framkvæmd samkvæmt þessu stóra plaggi fyrr en á árunum 2019–2022, við ætlum að fresta því um tíu ár. Fyrr má nú rota en dauðrota í þessum efnum. Ég vil því hvetja mjög til þess að þetta verkefni verði skoðað alveg sérstaklega í meðferð þingsins.

Ég hef tekið eftir því að í umræðunni sem farið hefur fram í dag hefur þessi tiltekna vegaframkvæmd, sem er ekki sú stærsta né dýrasta í landinu, fengið ótrúlega mikla athygli og ég trúi því þess vegna að fullur vilji sé til að hyggja sérstaklega að henni, ekki síst vegna sérstöðu Árneshrepps sem býr við mjög lélegar samgöngur eins og allir vita.

Nákvæmlega sama er að segja varðandi Dýrafjarðargöngin. Þau voru komin á dagskrá á sínum tíma. Við vitum að aðstæðurnar breyttust, það var meira að segja búið að taka um það pólitíska ákvörðun í kjölfar þorksveiðibrestsins að flýta þeim jarðgangaframkvæmdum um eitt ár. Þær duttu síðan út við efnahagshrunið en það er illt í efni ef niðurstaðan er sú að sú framkvæmd fari ekki af stað fyrr en á árunum 2019–2022 og þá að því gefnu að það takist að tvöfalda framlögin til vegamála frá því sem þau eru á fyrsta samgönguáætlunartímabilinu samkvæmt langtímaáætlun. Engu að síður er þá bara talað um að við getum komist af stað með þessi göng á árunum 2019–2022. Við vitum að hér er gríðarlega mikið í húfi fyrir Vestfirði og þá uppbyggingu sem við viljum sjá og þær vegtengingar sem við þurfum á að halda innan svæðisins.

Það er hægt að fara orðum um fjöldamörg atriði í þessum efnum. Ég nefndi áðan að ýmis svæði innan Norðvesturkjördæmis væru nánast alveg afskipt á fyrsta tímabili vegáætlunarinnar. Ég ætla sérstaklega að nefna eitt í því sambandi sem íbúar á Vesturlandi hafa lagt mikla áherslu á, það er uppbygging vegarins um Uxahryggi, Uxahryggjaleið, sem skapað gæti mjög mörg ný og spennandi tækifæri í ferðamálum á því svæði og ekki bara á því svæði heldur gæti það breytt mjög mikið ferðamunstri erlendra ferðamanna sem hingað koma sem sæju þá möguleika á eins konar nýjum gullnum hring sem valkosti eða viðbót við þann gullna hring á Suðurlandi sem margir ferðamenn fara.

Virðulegi forseti. Á þessu korteri hef ég farið á hundavaði yfir nokkur atriði sem mér finnst máli skipta í þessu. Ég fagna áherslu hæstv. ráðherra á vegagerð á Vestfjörðum en harma engu að síður að þetta plagg er mjög afturhlaðið. Það vekur manni mjög mikla tálsýn (Forseti hringir.) en mér finnst það ekki endurspegla bjartsýni.