140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi vísvitandi reynt að sneiða hjá því að tala um metnaðarleysi í sambandi við þessa áætlun. Ég sagði hins vegar að mér fyndist hún ekki lýsa bjartsýni og að mér fyndist vera í henni nokkuð mikil tálsýn. Hvað á ég við? Þegar hún er skoðuð er hún mjög afturhlaðin. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að ef þessi áform ganga eftir mun heilmikið gerast í vegamálum á næstu tíu árum. Okkur finnst tíu ár kannski ekkert voðalega lengi að líða þegar við horfum til baka. Nú er árið 2012 og manni finnst að árið 2002 sé ekki í neinni órafjarlægð þegar maður horfir til baka. En ef við skoðum málin af sanngirni og förum tölulega yfir þau er það þannig að ef við brjótum þessa áætlun niður í vegamálunum í þrjá tímaáfanga sýnist mér að um 20% af fjárveitingunni falli til á þessu vegáætlunartímabili, árin 2011–2015. Um 45% munu þá falla til á síðasta tímabilinu, hér um bil helmingurinn. Við ætlum að ráðast í hér um bil helminginn af þeim framkvæmdum sem hæstv. ráðherra talar um árið 2019 og ég óttast að t.d. íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum muni ekki deila þeirri skoðun með hæstv. ráðherra að það sé gríðarlega mikill sigur að geta tryggt að vegir á þeim slóðum, á Vestfjarðavegi 60, komist fyrst í bærilegt horf á árunum 2019–2022. Gert er ráð fyrir um 5 milljörðum á síðasta tímabilinu til þeirra framkvæmda. Það er það sem ég á við. Ég reyndi að vera tiltölulega sanngjarn, ég margviðurkenndi að auðvitað urðum við að draga saman seglin, auðvitað urðum við að minnka kröfurnar. Ég sagði það líka, og ég hvet hæstv. ráðherra til að bregðast við því, að ég hefði talið að þær framkvæmdir sem lagðar voru til hliðar vegna niðurskurðarins (Forseti hringir.) hefðu að öllu óbreyttu átt að koma aftur inn í vegáætlun núna þegar við erum að fara inn í nýtt tímabil og vísa ég í þeim efnum til Fróðárheiðar á Snæfellsnesi og Veiðileysuháls norður í Árneshreppi.