140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum um samgönguáætlun, bæði þá stóru og litlu eins og kallað er. Ég vona að hæstv. innanríkisráðherra sé við þessa umræðu vegna þess að ég hyggst leggja nokkrar spurningar fyrir hann. Hann hefur verið við umræðuna í allan dag og ég vona að hann hverfi ekki á brott núna.

Sú áætlun sem hér er lögð fram veldur ákveðnum vonbrigðum, það skal segjast strax, vegna þess að hér er að mínu mati veitt allt of lítið fé til samgöngumála miðað við það ástand sem er í þjóðfélaginu í dag. Við þurfum meira fé inn og það er tími fyrir ríkið til framkvæmda núna, góður tími til að styrkja innviði og halda áfram því mikla átaki sem hefur verið í samgöngumálum. Hér virðist verulega slegið af í þessu vegna þess að upphæðirnar eru mjög lágar. Þegar maður tekur tölurnar í samgönguáætluninni saman, vegna þess að það er ekki gert í áætluninni sjálfri, það þarf að setja þær upp í sérstök excel-skjöl, sést að til svæðanna fjögurra árið 2014 verður einungis varið 3,3 milljörðum kr. Árið 2013 er það aðeins meira eða 3,7 milljarðar. Á þessu ári verða það tæpir 5 milljarðar sem er lækkun frá því sem lægst hefur verið, þ.e. frá því sem var á síðasta ári.

Síðan getum við farið út í hvernig fjárhæðunum er skipt niður vegna þess að hæstv. innanríkisráðherra hefur sagt að fara eigi í framkvæmdir þar sem ástandið er lakast og ég er alveg sammála því. En ég er ekki viss um að við séum sammála um hvar lökustu svæðin eru. Ég hef áður sagt að ég meti það svo, í ljósi þess stórátaks sem staðið hefur yfir og sem allir flokkar voru sem betur fer sammála um, að ef við tökum byggðarlög á landinu séu þrjú svæði eftir. Það er í fyrsta lagi sunnanverðir Vestfirðir, þeir eru sem betur fer eru inni á áætlun, ef við komumst einhvern tíma áfram þar, eftir því sem fer með umhverfismatið sem tefur og tefur þær framkvæmdir. Þar þarf að gefa í og ég er sammála um að setja þar inn þetta fé þó svo að það sé á þessu ári 100 millj. kr. minna en í gömlu áætluninni, það er lækkun úr 1.100 millj. kr. niður í 1.000.

Síðan er það Norðfjörður með sín Oddsskarðsgöng í 630 metra hæð. Göngin eru einbreið, með blindhæð og mjög dimm og hættuleg. Vegagerðin hefur farið um með tæki til að skrafla niður laust grjót, og það hefur fallið grjót, að sjálfsögðu vegna þessara fyrirbyggjandi aðgerða en laust grjót er það sem fellur niður.

Síðan er það Seyðisfjörður og Fjarðarheiðin í 600 metra hæð. Þar og á þessum stöðum, ef ég tek sunnanverða Vestfirði og byggðarlögin þar, Patreksfjörð, Bíldudal og Tálknafjörð, ef við förum ekki lengra norður eftir, er ófremdarástand á vegunum. En ég segi líka að það sé ófremdarástand í Oddsskarði í 630 metra hæð, vegurinn er mjög brattur með kröppum beygjum og vegna þeirra veðurbreytinga sem orðið hafa undanfarin ár er hálka líka orðin miklu meiri en hún áður var og þetta gerir veginn að einum þeim hættulegasta á landinu. Þess vegna er ég algerlega ósammála því að Norðfjarðargöngum sé frestað í áætluninni, í stað þess að framkvæmdir hefjist á þessu ári eins og segir í gildandi áætlun fyrir árið 2012, það voru einnig settir peningar í þau árið 2011, er þeim frestað fram á annað tímabil. Virðulegi forseti, miðað við þessa áætlun og þau verk sem eiga að hefjast í því kjördæmi tel ég ekki miklar líkur á því að við klárum þau göng 2018 miðað við það sem eftir stendur í þeim verkum sem hér eru sett inn. Þetta hryggir mig vegna þess að eftir göngunum var kallað í forgangsröðun sveitarstjórnarmanna á Austurlandi, í Norðausturkjördæmi, þeir settu þau sem aðalverkefnið. Það er líka mat allra tíu þingmanna kjördæmisins sem hafa sagt: Já, ef við þurfum að forgangsraða þá eru Norðfjarðargöng númer eitt. Ef við eigum ekki meiri pening til en það sem þarf í Norðfjarðargöng á hverju ári, já, þá er það forgangsröðun okkar og við það á að standa. Mér er til efs um að jafnmikil samstaða hafi áður myndast í þingmannahópum eins og þarna gerðist. Þess vegna er ég algerlega andvígur þessari frestun. Við höfum tekist á, ég og hæstv. innanríkisráðherra, um þá peninga sem eru inni núna, og þá sem ég tel að séu inni og eru inni, þeir hafa ekki verið felldir út því að það verður ekki gert nema á Alþingi.

Það er ein spurning mín til hæstv. … (Innanrrh.: Það var gert á Alþingi.) Það var ekki gert á Alþingi. (Innanrrh.: Það var gert.) Ég bið hæstv. innanríkisráðherra að svara því á eftir í ræðu en ekki stuttu andsvari. (Innanrrh.: Það er í fjárlögum.) Þetta er ekki rétt. Þetta er vitleysan og hún kemur hér enn einu sinni fram. Þess vegna spyr ég ráðherra: Er rétt að frá árinu 2011 standi eftir 1–1,5 milljarðar sem ónotað fé til vegaframkvæmda? Er trygging fyrir því að það komi inn á þetta ár? Hvað rann mikið frá árinu 2010 til ársins 2011? Þetta er grundvallaratriði.

Þar sem ég sé að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er komin í salinn að beiðni minni þá ætla ég núna að taka aðeins til umræðu Vaðlaheiðargöng, ef ég hef tíma til eða í seinni ræðu minni. Við þurfum líka að skiptast á skoðunum um þau vegna þess að um þau hefur ýmislegt verið sagt annars staðar en í þessum ræðustól sem segja má að afvegaleiði umræðuna. Þar er að mínu mati vísvitandi farið með rangar tölur og rangar upplýsingar, allt til að sverta þessa framkvæmd sem Alþingi Íslendinga hefur tekið ákvörðun um að fara í. Ég minni á að til er samþykkt samgönguáætlun sem er í gildi þar sem Alþingi hefur samþykkt að fara í Vaðlaheiðargöng. Hvernig átti að borga þau, virðulegi forseti? Með veggjöldum að helmingi og ríkissjóður ætlaði að borga hinn helminginn. Síðan var horfið frá því vegna efnahagshrunsins og nú á það allt að fjármagnast með veggjöldum.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að það væri dálítið flókið að fara í gegnum þá áætlun sem lögð var fyrir þingflokkana. Ég þurfti til dæmis að setja tölurnar upp í sjö skjöl til að geta gert samanburð. Ég tek eftir því að tölurnar eru ekki lagðar saman og maður getur ekki gert samanburð nema taka hvert svæði fyrir sig. Ég fagna því að menn tala nú um svæði en ekki kjördæmi. Árið 2014 er fjárhæðin ekki nema 3,3 milljarðar kr. Féð skiptist líka mjög skringilega milli svæðanna en eins og ég sagði áðan eru lakar samgöngur á fleiri svæðum en á sunnanverðum Vestfjörðum.

Virðulegi forseti. Það var gert ágætissamkomulag milli ríkisstjórnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um almenningssamgöngur og í þær átti að fara allt að 1 milljarður á ári í tíu ár. Markmiðið var að tvöfalda ferðir með almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu eins og hæstv. innanríkisráðherra sagði í flutningsræðu. Gott og vel, það eru fögur markmið. En það var líka sagt að þá ætti ekki að veita eins mikið fé til vegaframkvæmda á því svæði. Engu að síður er meiri peningum varið í það svæði en til dæmis Norðaustursvæðið og munar um 1,5 milljörðum. Í áætluninni er til dæmis inni framkvæmd upp á einar 1.000 milljónir við Álftanesveg. Álftanesvegur er settur inn í áætlun. Hann var boðinn út og búið var að opna tilboð. Það blossuðu hins vegar upp mikil mótmæli við að fara í þá framkvæmd og það verk var í raun stoppað, annars værum við búin með það. Það er hér inni.

Vegna samningsins um almennar samgöngur spyr ég hæstv. innanríkisráðherra: Af hverju er ekki sett minna fé til samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu eins og samþykkt var með undirskrift samkomulagsins? Af hverju er ekki minna fé sett til höfuðborgarsvæðisins og meira fé til hinna svæðanna, eigum við að kannski að segja þeirra sem lökust eru sett og ráðherrann sagði að setja ætti fé í eins og til dæmis Norðvesturkjördæmi og Norðfjarðargöng? Það er í raun og veru ekkert að samgöngukerfinu á höfuðborgarsvæðinu nema í morgunumferðinni og síðdegisumferðinni. Að sjálfsögðu fagna ég öllum þeim peningum sem eru inni í áætluninni og eiga að fara í umferðar- og öryggisatriði á höfuðborgarsvæðinu eins og vegrið og að taka út smábletti sem tefja og stífla mjög umferðina. Þetta er fínt, mjög gott eins og það er sett inn en hér eru líka framkvæmdir á dagskrá. Á síðasta árinu er til dæmis áætlað að hefja framkvæmdir við Arnarnesveg sem er svona 2007 framkvæmd, 2+2 vegur.

Virðulegi forseti. Af þeim fimm mínútum sem ég á eftir ætla ég að ræða aðeins um Vaðlaheiðargöng og þá framkvæmd. Ég vænti þess að formaður umhverfis- og samgöngunefndar sem komin er í salinn, og ég fagna því, komi inn á þau í ræðu sinni á eftir vegna þess að samþykkt hefur verið á mörgum vígstöðvum að fara í þá framkvæmd. Sú framkvæmd á að vera þannig að veggjöld standi undir henni og ég vil taka það skýrt fram, virðulegi forseti, að því er ég algerlega sammála. Það á ekki að koma króna úr ríkisfé í þá framkvæmd.

Nú liggur fyrir, eftir heimild ríkisstjórnar á mörgum stigum, þar á meðal við samninginn við fjármálaráðuneytið, að heimilt var að bjóða út verkið og búið er að opna tilboð. Hvað höfum við þá fyrir framan okkur, virðulegi forseti? Við höfum allan kostnað eins og hann er í dag, ekki bara kostnaðaráætlun heldur líka tilboð. Þá stendur eftir spurningin: Fer framkvæmdin fram úr áætlun eða ekki? Verður hún eins og Bolungarvíkurgöng á áætlun, faglegri flottri áætlun sem Vegagerðin og verkfræðistofur gera? Áætlanir þeirra standast yfirleitt og ég andmæli því sem komið fram frá Pálma Kristinssyni verkfræðingi sem segir að ekkert sé að marka áætlanir Vegagerðarinnar og þeirra aðila sem vinna fyrir hana. Þetta er lúaleg framsetning og honum ekki til sóma vegna þess að ég hygg að við getum séð að þær áætlanir sem Vegagerðin hefur gert …

(Forseti (ÁI): Forseti vill biðja hv. þingmenn að gæta hófs í orðavali þegar rætt er um fjarstadda menn sem ekki hafa tök á því að bera hönd fyrir höfuð sér í þessum sal.)

Ég skal gera það, virðulegi forseti, en umræddur maður hefur lagt inn skýrslu í þetta mál.

(Forseti (ÁI): Þá er skýrslan til umræðu, hv. þingmaður, ekki einstaklingurinn sem ekki getur svarað fyrir sig á þessum vettvangi.)

Virðulegi forseti. Það sem ég var að segja var einfaldlega þetta: Þá stendur eftir hvort verkið fari fram úr áætlun. Segjum sem svo að verkið fari bara 7% fram úr áætlun, ekki 17% eins og gerðist með Héðinsfjarðargöng vegna mjög óvænts atviks sem olli því að farið var fram úr áætlun, bara út af magntölum. Segjum að framkvæmdin fari 700–800 millj. kr. fram úr áætlun, vegna þess að aukið hefur verið inn í útreikninga á kostnaði við Vaðlaheiðargöng og meiri ófyrirséður kostnaður settur þar inn en áður hefur verið gert fyrir jarðgangagerð. Alltaf hefur verið sagt að ef kostnaðurinn eykst, við skulum bara segja um 700 millj. kr., þá fari hann inn í lánastabbann og vegfarendur verða þá að borga lengur fyrir að keyra í gegnum göngin. Þetta hefur alltaf verið skýrt. Þá stendur eftir spurningin um umferðarmagnið í gegnum göngin. Að sjálfsögðu getur enginn svarað því hvert það verður nema með spá og ég treysti Vegagerðinni og sérfræðingum hennar langbest af öllum til að gera þá spá. En það hefur stundum verið þannig, virðulegi forseti, að með auknum samgöngubótum hefur umferðin orðið miklu meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Það gerðist í Héðinsfjarðargöngum, það gerðist í Hvalfirðinum. Í umræddri skýrslu er það sett fram að eina atriðið sem klikkaði í þeirri spá var umferðarspáin. Umferðin varð miklu meiri en spáð var fyrir um. Hið sama gerðist þegar sá Herjólfur sem siglir í dag kom til sögunnar. Fjöldi þeirra sem notuðu þá ferju varð margfalt meiri en spáð hafði verið. Og þeir sem höfðu spáð þeim tölum voru taldir eitthvað miklu meira en bjartsýnismenn, jafnvel óraunsæismenn, en þetta gekk eftir. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, að það er ákaflega mikilvægt að taka þessa framkvæmd inn í umræðuna um samgönguáætlun, hún blandast að sjálfsögðu inn í þau mál. Það hlýtur að vera að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, komi inn á Vaðlaheiðargöngin í þessari umræðu vegna þess að hún er sá hv. þingmaður sem hefur gert hvað minnst úr þeim spám sem gerðar hafa verið og haft uppi stór orð um þær upplýsingar sem liggja fyrir um þetta verk sem þarna er verið að vinna eftir samþykkt ríkisstjórnar Íslands og hæstv. innanríkisráðherra sat á þeim fundi þegar þessi ákvörðun var tekin. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég vil nefna eitt í viðbót vegna þess að ég hygg að hæstv. innanríkisráðherra komi í andsvar við mig á eftir og telji mig fullsvartsýnan eins og hann hefur sagt við nokkra aðra en hann telur að ekkert nema sól og blíða sé fram undan í þessum málum. Vissulega er margt jákvætt inni í áætluninni en það er margt sem vantar. Ég get ekki annað, á þeim sekúndum sem ég á eftir og áður en ég kem í seinni ræðu mína, en lýst óánægju minni með það hvernig búið er að slá út af borðinu hugmyndir um stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu með lánum frá lífeyrissjóðunum og með veggjöldum og þær framkvæmdir settar inn í ríkisáætlunina. Þær munu þá taka til sín mikla peninga næstu 10–20 árin og við munum dúlla við þau verkefni næstu 15–20 árin.