140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:56]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru í samgönguáætlun, og fjárlögin studdu það, 1,5 milljarðar sem voru til í Norðfjarðargöng, hugsað til að byrja það verk árið 2012. Það stendur í áætlun, alveg eins og stendur í áætlun sem hæstv. ráðherra er að leggja fram, þegar fer yfir á annað tímabil, að það vantar meiri pening þar á eftir. Það voru áformin, það voru alltaf áformin. Þess vegna var það sem allir 10 þingmenn Norðausturkjördæmis eru sammála um að leggja höfuðáherslu á Norðfjarðargöng og afleggja þann stórhættulega veg sem er um Oddsskarð. Er hæstv. ráðherra ekki sammála mér um að þetta sé stórhættulegur vegur? Er þetta einhver úrvalsvegur? (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég hygg að hæstv. innanríkisráðherra eigi eftir að koma hingað og loka þessari umræðu á eftir. Þess vegna spyr ég: Af hverju er gengið gegn vilja þingmannanna og samdóma áliti Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi um að Norðfjarðargöng séu nr. eitt, tvö og þrjú, séu forgangsverkefni til að setja inn? Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það var meðvituð ákvörðun okkar líka. Það er ekki það vinsælasta í kjördæminu að segja: Ef við eigum ekki völ á meiru en þeim peningum sem þarf í það verkefni, vegna þess að að sjálfsögðu byrjum við ekki á því verkefni nema geta klárað það, þá fara allir peningar þess kjördæmis í það verkefni vegna þess að við erum sammála um að þetta sé brýnasta verkefnið í öllu kjördæminu eftir það mikla átak sem gert hefur verið með Vopnafjarðarveginn, Hófaskarðsleið, veginn niður á Raufarhöfn o.s.frv.