140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:02]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög athyglisverð umræða. Hver einasta króna sem fer í Vaðlaheiðargöng er á ábyrgð ríkissjóðs og um það snýst málið, hversu alvarlega við tökum það hlutverk okkar að gæta almannafjár og taka ekki sem gefin fyrirheit um eitthvað sem er í þoku mikillar áhættu og óvissu jafnvel þó að ríkur vilji standi til að ganga í þá framkvæmd.

Ég er ekki að gera lítið úr þeirri samgönguúrbót sem Vaðlaheiðargöng væru en það eru svo miklu brýnni verkefni um land allt. (Gripið fram í.) Og að umhverfis- og samgöngunefnd sé einungis að kalla svartsýna menn á staðinn er einfaldlega rangt, það er alrangt. Þá vil ég, talandi um skýrslur, spyrja hv. þingmann, sem situr í forsætisnefnd Alþingis — í margar vikur hefur legið fyrir beiðni af okkar hálfu um sjálfstæða og óháða úttekt á þessu verkefni og við í umhverfis- og samgöngunefnd fengum svar nú nýlega. Hvers vegna upplýsti hv. þm. Kristján L. Möller umhverfis- og samgöngunefnd ekki um að til væri skýrsla í hans fyrrverandi ráðuneyti um þetta mál, skýrsla sem einmitt, eins og ég sagði áðan, lýsir mikilli áhættu við þetta verkefni? Hvers vegna kom það ekki til álita, alla vega sem form af einhvers konar svari, í stað þess að láta erindið liggja í margar vikur óafgreitt, þetta erindi umhverfis- og samgöngunefndar. Og talandi um skýrslur, ég ítreka það, koma jafnvel í skýrslu IFS fram mjög alvarlegir óvissuþættir og þar að auki leggja þeir ekki mat á þær grunnforsendur sem málefnaágreiningurinn stendur í raun um. Það eru þær sem þarf að ræða og áhættan er einfaldlega, að minnsta kosti ef við ætlum að miða við skýrslurnar, of mikil og mun að endingu lenda á ríkissjóði og þar með á öðrum brýnni verkefnum.