140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Ég vil taka undir það sem kemur fram hjá hv. þingmanni, um mikilvægi þess að flugvöllurinn verði hér áfram á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Mig langar að taka þessa umræðu aðeins lengra þar sem hv. þingmaður nefndi einmitt mikilvægi þess að þétta byggðina og þessi sjónarmið sem hafa verið misjöfn í mínum flokki, hvort heldur það eru borgarfulltrúar eða þingmenn sem hafa verið þeirrar skoðunar að flugvöllurinn eigi að fara eða vera; skoðanir manna í mínum flokki ganga þvert á ýmsar aðrar línur.

Við lendum oft í þessari umræðu, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, að það er einmitt allt eða ekkert og allir hafa hið eina rétta svar. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann talaði um þéttingu byggðarinnar: Þegar við vorum að vinna í fjárlaganefnd með byggingu á nýjum Landspítala kom það fram, í þeim gögnum sem ég skoðaði, þegar menn fóru af stað með það verkefni, að fara þyrfti í töluverðar vegaframkvæmdir og uppbyggingu á samgönguverkefnum til að leysa þá umferðarhnúta sem hugsanlega gætu myndast á þessu svæði.

Ef við tækjum ákvörðun um flugvöllinn, hvort hann yrði kyrr á þessu svæði eða færi, þá yrði væntanlega meiri uppbygging í kringum íbúabyggðina. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um það hvort ekki væri skynsamlegt fyrir okkur, þegar við förum að fjalla um byggingu Landspítalans, að byrja á að ræða og undirbúa hvernig við ætlum að leysa mál varðandi umferðina sem á að komast að þeim nýja spítala. Miðað við fyrstu forsendur þurfti að gera töluverðar breytingar. Svo fóru menn í að breikka Hringbrautina, þá átti það að duga þannig að við vöndum ekki nógu oft vinnubrögðin, held ég.