140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:32]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umfjöllun hans um málefni Reykjavíkurflugvallar í tengslum við samgönguáætlunina sem hér er til umræðu og tek undir með honum, ég mundi helst vilja flugvöllinn burtu af þessu svæði. En ég geri mér, eins og hann, grein fyrir því að líta þarf að til fleiri sjónarmiða en ráða þeirri niðurstöðu. Ég er þó ekki þeirrar skoðunar vegna þess að ég álíti Vatnsmýrina svo gott byggingarland heldur hef ég fyrst og fremst áhyggjur af öryggismálum íbúa höfuðborgarsvæðisins sem búa undir fluglínum vegna flugvallarins.

Ég var á sínum tíma formaður nefndar um áhættumat á flugvellinum sem skilaði skýrslu um sambýli flugs og byggðar einhvern tímann á hinni öldinni. Þar kemur fram það sem allir vita og skynja að norður/suður-brautin er mönnum þyrnir í augum vegna öryggismála. Hægt er að mínu viti að draga úr áhættunni þar með ýmsum aðgerðum, með því að þrengja að tilteknu flugi, taka millilandaflug alveg í burtu og einkaflug, allt æfingaflug og ferjuflug en það þarf líka að huga að öryggi á landi og mengun, bæði hávaðamengun, loftmengun og efnamengun.

Mig langar að spyrja hv. þingmann betur út í þá hugmynd sem rædd hefur verið síðan skýrslan um sambýli flugs og byggðar sem ég nefndi kom út, um að snúa austur/vestur-brautinni aðeins, lengja hana út í Skerjafjörðinn og taka Suðurgötuna í göngum undir hana. Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður þekki til þess að gerðar hafi verið einhverjar athuganir á því hvað (Forseti hringir.) slík framkvæmd mundi kosta.