140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, mér er ekki kunnugt um hvort fyrir liggja einhverjar kostnaðaráætlanir við slíka lausn þannig að ég get ekki svarað því en kannski gæti nefndin sem fjallar um málið kallað eftir því. Hins vegar er þessi lausn í raun og veru í meginatriðum í takt við það sem aðalskipulag Reykjavíkur gerði ráð fyrir á skipulagstímanum 2016–2024. Þar er gert ráð fyrir að austur/vestur-brautin sé ein eftir og að hún sé þá byggð upp sem meginbraut. Ef til vill þyrfti að færa hana eitthvað til, skekkja hana vegna aðflugs t.d. vegna Öskjuhlíðarinnar austan megin frá, en hún væri náttúrlega frí að vestanverðu með að- og fráflug yfir sjó. Væntanlega er hægt að færa blindflugsbúnaðinn og gera brautina þannig að brautin geti þjónað sem meginflugbraut.

Þarf þá samt sem áður að vera önnur þverbraut á hana? Það er mál sem þarf að skoða sérstaklega hvort einnig þyrfti að vera þar stutt þverbraut til að geta þjónað í einhverjum neyðartilvikum. Sjónarmið mitt hefur verið það að auðvitað eru öryggismál mikilvæg, eins og hv. þingmaður vék að í þessu sambandi og ég tek undir með henni hvað það snertir, þau skipta miklu máli, norður/suður-brautin ekki síst í því efni, en frá mínum bæjardyrum og út frá skipulagssjónarmiðum um þéttbýlið á höfuðborgarsvæðinu tel ég mikilvægt að hægt sé að styrkja byggð á þessu svæði vegna þess að það mun draga úr umferðarflæði um allt höfuðborgarsvæðið. Ég er ekki á þeirri skoðun að þarna sé hægt að koma fyrir 20–30 þúsund manna byggð eins og sumir hafa talið en ég tel að það séu engu að síður möguleikar þarna til að taka við bæði aukinni íbúðabyggð og atvinnustarfsemi til að draga úr þeirri miklu þörf (Forseti hringir.) fyrir stór umferðarmannvirki sem stækkun byggðar til austurs kallar sífellt á.