140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:37]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er athyglisvert að gert er ráð fyrir því í þessari áætlun að austur/vestur-brautin geti áfram verið í notkun, ekki aðeins til loka skipulagstímabilsins sem nú er gildandi í Reykjavík, heldur til 2030. En á hinn bóginn er síðan vísað til þess að ef norður/suður-brautinni yrði lokað yrði nýtingarhlutfallið of lágt fyrir alþjóðastaðla og þar með yrði innanlandsflugi almennt teflt í tvísýnu.

Ég hlýt að gera athugasemdir við það. Það segir sig sjálft að ef ekkert er að gert annað en að loka norður/suður-brautinni, engar úrbætur á austur/vestur-brautinni, henni er hvorki snúið né hún lengd, og ef enginn blindflugsbúnaður og betri flugleiðsögutæki eru sett upp við austur/vestur-brautina kann vel að vera að brautin muni ekki nýtast nema í rúmlega 80% tilfella. Ég tel að skoða þurfi þetta mál mjög vel í hv. umhverfis- og samgöngunefnd með það að markmiði sem hv. þingmaður nefndi, að ná einhvers konar sátt um framtíð nauðsynlegs innanlands- og þjónustuflugs til og frá Reykjavík. Þá er ég ekki að tala um allt það flug sem flugmálayfirvöld vilja hafa á vellinum. Ég hef harmað þvermóðsku flugmálayfirvalda og samgönguyfirvalda í þeim efnum í bráðum tvo áratugi vegna þess að það segir sig sjálft að með því að létta á umferðinni um Reykjavíkurflugvöll þá skapast strax meiri friður um hann.

Eitt sem ég vil nefna til sögunnar í því sambandi er flutningur Landhelgisgæslunnar til Keflavíkurflugvallar og mig langar til að spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til þess.