140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja varðandi það sem segir á bls. 39 og ég vék að í máli mínu, að ég hef ekki sannfæringu fyrir þeim tölum sem þar koma fram. Ég tel að þær þurfi að skoða betur. Enda segir á bls. 39, með leyfi forseta:

„Lokun brautarinnar mundi einnig leiða til þess að Reykjavíkurflugvöllur nýttist ekki sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll þar sem A-V-flugbrautin er of stutt.“

Menn gefa sér að því er virðist að hún verði óbreytt. Það er kolröng forsenda. Ef tekin yrðu sú afstaða eða ákvörðun að vera með austur/vestur-brautina sem aðalbraut yrði að gera á henni tilhlýðilegar breytingar, bæði að lengja hana og breikka hana, öryggissvæði, blindflugsbúnað og annað slíkt, þannig að að sjálfsögðu mundi nýting hennar vera hærri en sem því nemur.

Þegar verið er að tala um Reykjavíkurflugvöll og þá tegund af flugi sem hann á að sinna, sem er fyrst og fremst innanlandsflugið, og talað er um að staðlar Alþjóðaflugmálastofnunar geri ráð fyrir að slíkan flugvöll eigi að vera hægt að nýta í 95% tilvika, þá spyr ég: Hver er þá nýting annarra flugvalla á landinu sem taka við þessu sama flugi, eins og t.d. Ísafjarðarflugvallar? Hver er nýtingin á honum? Eru ekki gerðar sömu kröfur þar? Það er bara hinn endinn á sama fluginu í meginatriðum. Mér finnst að það þurfi aðeins að skoða betur og ég hvet til þess að það sé gert.

Hvað varðar Landhelgisgæsluna er það atriði sem skoða þarf betur. Þegar rætt var um niðurlagningu Varnarmálastofnunar og aukin verkefni Landhelgisgæslu var í nefndaráliti utanríkismálanefndar fjallað um og tekið almennt mjög jákvætt undir það að starfsemi Landhelgisgæslunnar yrði flutt til Keflavíkur og þar með flugstarfsemin á Keflavíkurflugvöll. Ég átti aðild að því nefndaráliti þannig að ég get sagt að almennt séð er ég jákvæður fyrir því en vafalaust þarf að gera á því nánari athuganir og úttektir.