140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[18:59]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið og fyrir að fá að svara því að tíminn hljóp frá mér áðan. Það er alveg rétt og ég sagðist styðja það að farið væri að undirbúa framkvæmd Vaðlaheiðarganga en það er veikleiki í undirstöðum hvað varðar rekstraráætlanirnar. Það vantar meira eigið stofnfé til að rekstraráætlun geti með nokkuð öruggum hætti staðið undir sér þannig að maður geti verið alveg rólegur og sagt: Þessi 9% óvissuþáttur á ekki að þurfa að koma til og sjást.

Auðvitað er erfitt að gera örugga rekstraráætlun. Það fer eftir umferðarþunga, eftir vöxtum á lánum, þetta fer eftir svo mörgu öðru, hvaða verkefni fara í gang norður á Húsavík eða á norðausturhorninu. Sú aukning, sú umferðarspá er takmörkuð inni í þessu. Ef einhverjar verulegar framkvæmdir færu í gang, segjum bara eftir þrjú eða fimm ár, fara þær að skila sér miklu fyrr, um leið og göngin væru opnuð skila þær sér þar inn.

Ég vil líka segja að ég hef verið ósammála því að leggja á veggjöld á þessu stigi, eins og áætlað var um þær þrjár meginæðar út frá höfuðborginni, því að á meðan við erum ekki búin að innleiða annars konar veggjöld í stað skatta í dag, eigum við ekki að taka út einstakar framkvæmdir og setja á veggjöld, nema þar sem fólk hefur val milli tveggja leiða.