140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[19:05]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun hina styttri og lengri, þ.e. til fjögurra ára og tólf ára, og margt hefur komið fram í dag. Hér við fyrri umræðu er kannski eðlilegt að meira verði um vangaveltur en beinar tillögur en þó væri áhugavert að fá kannski viðbrögð ráðherra eða nefndarinnar við nokkrum atriðum í framhaldinu.

Í tillöguplagginu sjálfu er talað um að í stefnumótuninni sé markmiðið að tryggja greiðar og hagkvæmar samgöngur, umhverfislega sjálfbærar, öryggi í samgöngum og jákvæða byggðaþróun og allt er þetta hið besta mál. Einnig er hér skilgreining á grunnnetinu og hvað vegina varðar er sagt að tengja eigi saman byggðir landsins og við það vegakerfi sem þannig fæst skal tengja þéttbýlisstaði með um það bil 100 íbúa eða fleiri. Til stofnvega teljast einnig umferðarmestu vegir sem tengja saman sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Hér er kannski rétt að staldra við og spyrja hæstv. ráðherra. Einu sinni gilti sú skilgreining hjá Vegagerðinni að til stofnbrauta teldust vegir þar sem færu 100 bílar á dag eða fleiri. Um marga vegi, til að mynda á Suðurlandi, aka miklu fleiri en 100 bílar á dag og þó nokkrir þeirra flokkast sem tengivegir en ekki stofnbrautir. Þeir ættu í raun að fá það fjármagn og þá uppbyggingu sem venjulegar stofnbrautir þurfa. Þetta er einn hallinn sem er í þessu og það er spurning hvort slíkir vegir ættu ekki að falla undir þessa skilgreiningu því að þeir eru sannarlega svona mikið keyrðir og þetta kemur niður á örygginu. Mikið er um slys og veltur og vandræðagang þegar fólk keyrir á lélegum malarvegum eða malarvegum sem ekki er hægt að halda almennilegum þrátt fyrir góðan vilja Vegagerðarinnar.

Auðvitað verðum við líka að viðurkenna að við höfum náð ótrúlegum árangri í að byggja upp samgöngukerfi, hvort sem það snertir flug, hafnir eða vegi, og hér hefur verið gert ótrúlega margt á stuttum tíma. Auðvitað vorum við heppin með að herinn byggði Reykjavíkurflugvöll og Keflavíkurflugvöll og við höfum auðvitað nýtt okkur það en við höfum líka lagt margt til að öðru leyti.

Það sem mig langar að ræða aðeins er samspil hins nýja landsskipulags samkvæmt skipulagslögum og samgönguáætlunar. Það er í raun og veru þannig og hefur alltaf verið talað um að samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og fleiri áætlanir, svo sem hvað varðar umhverfisvernd og annað í þeim, séu landsáætlanir sem fara inn í landsskipulagið. Nú erum við hér með fjögurra og tólf ára áætlun um skipulag. Tökum sem dæmi flugið. Hér eru greinilegir árekstrar við skipulagsstefnu sveitarfélagsins Reykjavíkurhrepps, það vill losa sig við flugvöllinn á meðan stærsti hluti landsins vill það ekki. Hvernig á að bregðast við því? Á að taka upp í landsskipulagsstefnu stefnu sveitarfélagsins eða ætlar ríkisvaldið að taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg á einhvern hátt og festa þennan flugvöll í sessi? Rætt hefur verið að hægt sé að gera það með ýmsum hætti, færa hluta innanlandsflugsins eða að það muni færast allt til Keflavíkur ef ekkert verður að gert. Við þingmenn Suðurkjördæmis höfum talað um að færa Landhelgisgæsluna á Suðurnesin. Það hafa til dæmis verið uppi hugmyndir um að flugvöllurinn á Hornafirði gæti þjónað ferjufluginu ef hann yrði opnaður aftur sem alþjóðaflugvöllur. Hvað þarf til að slíkt gæti orðið? Það er áleitin spurning því að í mörgum af þessum einka- og ferjuflugum er einmitt sóst eftir því að komast aðeins lengra til að stytta leiðina til Evrópu. Það er ein hlið á þessu.

Þetta ætla ég að láta nægja í sambandi við flugið en vil þó minnast á samgöngur til Vestmannaeyja því að á meðan ekki er komin ný ferja og Landeyjahöfn virkar þar af leiðandi ekki sem skyldi þarf að tryggja að flug sé raunverulegur valkostur.

Ef við ræðum hafnirnar eru þær gríðarlega margar og allar skortir þær fé til uppbyggingar. Hvernig tryggjum við það, og hver er skipulagsstefnan varðandi þær? Sveitarfélögin hafa mörg hver þá stefnu að búa til stórskipahafnir eða einhverjar aðrar hafnir. Fara slíkar skipulagsáætlanir inn í samgönguáætlun og verða þar með hluti af landsskipulagi eða rekst þarna á aðalskipulag sveitarfélaga og samgönguáætlun? Munu öll sveitarfélög landsins, þegar landsskipulag verður samþykkt á þessu þingi í vor eða haust, fyrsta landsskipulagið, þurfa að aðlaga á næstu fjórum árum aðalskipulag sitt að landsskipulaginu? Þýðir það að sveitarfélögin verði að fella út úr aðalskipulagstillögum sínum stefnumörkun varðandi til dæmis hafnir og flugvelli sem kemur ekki fram í samgönguáætlun? Verður það niðurstaðan? Ég veit að það eru krókaleiðir að þessu og hægt að rökstyðja þetta með ýmsum hætti.

Ég nefndi Landeyjahöfn og tökum einnig sem dæmi Suðurnesin. Þar er svæðisskipulag þar sem búið er að skipta upp hlutverkum milli Grindavíkurhafnar, Sandgerðis og Helguvíkur. Verður þetta tekið upp í samgönguáætlun sem hluti af landsskipulagsstefnu á Suðurnesjum? Hornafjörður, Vestmannaeyjar og Þorlákshöfn hafa öll gert áætlanir um stórskipahafnir. Verða þær hluti af samgönguáætlun og þar af leiðandi hluti af landsskipulagsstefnu okkar í uppbyggingu á höfnum á þessu svæði?

Það má nefna í sambandi við Þorlákshöfn að þar hefur verið rætt talsvert um stóriðju og um leið má nefna Húsavíkurhöfn. Áður fyrr, þegar menn voru að ræða um álver og risastórar framkvæmdir upp á kannski 100 milljarða og höfnin var kannski 1, 2 eða 3% af heildarframkvæmdinni, þá var það verk framkvæmt af þeim aðila eða fyrir þann sem fór fyrir framkvæmdinni, hluti af fjármögnuninni fór til hafnarinnar. En núna þegar við erum að fara fram með miklu minni verkefni, kannski upp á 5, 10 eða 20 milljarða, er í engum af þeim stóriðjuverkefnum eða orkufreku verkefnum tekin inn í uppbygging á höfninni. Þýðir það þá að Þorlákshöfn kemur aldrei til greina, ef ríkisvaldið gerir það ekki að stefnu sinni að þar verði byggð upp höfn? Gildir hið sama um Húsavík? Hver ætlar að byggja upp höfnina og á hvers kostnað verður það? Hvar kemur skipulagið og stefnan fram? Þetta þarf auðvitað að liggja fyrir.

Ég vil ræða örlítið um sjóvarnir. Við erum með ofanflóðasjóð til að taka við flóðum sem koma úr öðrum áttum en af sjó, við erum með Bjargráðasjóð og alls kyns viðlagatryggingar en þegar kemur að sjóvörnum þurfa sveitarfélögin að borga 1/8 af kostnaði. Af hverju eru sjóvarnir eða varnir gegn sjóflóðum ekki hluti af sambærilegu verkefni og ofanflóðasjóður? Hefur það verið skoðað í raun?

Tíminn líður hratt á gervihnattaöld, eins og stendur í kvæðinu fræga, og ég ætla að ræða aðeins um vegina því að þegar kemur að þeim er ekki síður mikilvægt að átta sig á því hvernig landsskipulagsstefna, sú stefna sem er í samgönguáætlun samrýmist aðalskipulagi sveitarfélaganna. Nú hefur Vegagerðin til dæmis samþykkt þær áætlanir sem sveitarfélagið Hornafjörður hafði gert um styttingu Hringvegarins og brú á Hornafjörð. Menn eru orðnir sammála um þetta þannig að augljóst er að sú stefna sem er í aðalskipulagi sveitarfélagsins er hin viðurkennda landsskipulagsstefna. Þetta er alveg klárt. Menn geta hins vegar verið ósammála um það hversu seint þetta kemur til framkvæmda en það er náttúrlega vegna peningaleysis.

Í Mýrdalnum aftur á móti er þetta ekki eins klárt, þar eru menn með hugmyndir um Hringveginn í aðalskipulagi, og var sérstaklega kosið um það í síðustu sveitarstjórnarkosningum. 80% íbúanna vildu fara ákveðna leið með þjóðveg 1 í gegnum sveitarfélagið. Það er ekki tekið tillit til þess í samgönguáætlun. Hvernig á aðalskipulag sveitarfélaganna að samrýmast landsskipulagsstefnunni, samgönguáætluninni? Þetta er nokkuð sem menn verða að átta sig á þegar við ætlum að keyra þetta saman.

Það má auðvitað nefna fleiri dæmi eins og til dæmis í Rangárvallasýslu. Eins og ég nefndi er eitt af markmiðum samgönguáætlunar að auka öryggi í samgöngum og í Rangárvallasýslu hafa menn lagt talsverðan þunga í öryggishlutann og vilja auka öryggi íbúanna vegna hugsanlegs flóðs úr Kötlu og telja að það þurfi brú á Þverá við Odda eða jafnvel einhvers staðar á öðrum stað. Ekkert er um þetta í samgönguáætlun til tólf ára.

Þá er ég kominn að Suðurlandsveginum sjálfum. Þó að ég gleðjist í hvert sinn sem ég fer Suðurlandsveginn og veit að ég fæ ekki bíl á móti mér vegna þess að það er búið að setja eitthvert vegrið á milli, það er búið að aðskilja akstursstefnurnar, þá er ég um leið jafnsvekktur yfir því að ekki skuli hafa verið tekið betur í það að fara 2+1 veginn árið 2002 og 2003 þegar samgöngunefnd Sambands sunnlenskra sveitarfélaga lagði það til. Ég held að ákveðin bóla hafi hlaupið í það. Síðasta framkvæmd er á margan hátt óheppileg, mér finnst erfitt að venjast þessu, mér finnst þetta ekki nógu vel heppnað, satt best að segja. En hvar er áætlunin um að klára þennan veg sem er með mesta arðsemi en er með hættulegustu vegum, bæði vegna slysatíðni og dánartíðni? Hver er forgangsröðunin varðandi þennan veg eða Vaðlaheiðargöng eða eitthvað annað? Út af fyrir sig er ekkert að því að leggja meginþunga á Vestfirði því að við þurfum auðvitað verulegar framkvæmdir um allt land, við vitum það þrátt fyrir að margt hafi verið vel gert. Hvar er samt forgangsröðunin þegar fylgja á eftir markmiðum samgönguáætlunar?

Mig langar aðeins að koma inn á eitt en það er hvernig samskipti sveitarfélaga og Vegagerðarinnar hafa þróast á síðustu árum í kjölfarið á þeirri breytingu sem var gerð fyrir þó nokkrum árum að sveitarfélögin gætu óskað eftir að taka ákveðna vegi yfir. Á síðustu árum hefur þetta breyst í þá átt að Vegagerðin sendir bréf og sendir vegina bara hreint yfir á sveitarfélögin. Þetta var ekki meiningin held ég og margir eru mjög hissa og undrandi á þessari þróun. Fylgja nægilegir fjármunir? Hvaða vegi er verið að taka yfir? Þetta eru auðvitað þjóðvegir í þéttbýli og ýmsir tengivegir eða safnvegir og héraðsvegir. Um þetta er ekki fullkomin sátt að ég held. Það þarf að ganga miklu betur frá þessum hlutum, bæði varðandi fjármögnun og hvernig þetta er í raun, ég held að margur hafi ekki skilið það.

Ég sendi inn fyrirspurn um þjónustu Vegagerðarinnar og hvaða vegir hefðu verið mest tepptir vegna snjóa og vetrarríkis síðustu mánuði ársins. Ég bíð eftir því svari og við tökum þá umræðu þegar þar að kemur en það má nefna þetta í tengslum við þær hugmyndir ríkisstjórnarinnar sem samþykktar hafa verið á þingi um markaðsátakið Ísland – allt árið, til að byggja upp ferðaþjónustu allt árið. Meira að segja á Þingvöllum situr rútan föst í snjó um helgar vegna þess að ekki er mokað því að við erum að spara. Það er ekkert samræmi í því að reyna að auka tekjur af ferðamönnum og senda þá hingað og þangað um allt land þar sem þeir sitja svo fastir. Fréttir bárust líka af Breiðdalsheiðinni þar sem menn sátu fastir á litlum Yarisbílum. Það er ekkert samhengi í þessum hlutum. Þessu verður að svara og þá í samgönguáætluninni.

Síðan langar mig aðeins að nefna almenningssamgöngurnar og tek undir að það er mjög góður punktur að auka almenningssamgöngur. Hins vegar má aldrei gleymast að Ísland er gríðarlega stórt land og eitt það dreifbýlasta í heimi og einkabíllinn verður alltaf fyrsti valkostur mjög margra íbúa landsins. Það er mjög eftirtektarvert og til fyrirmyndar að landshlutasamtökin á Suðurlandi hafa gert samninga við Vegagerðina og Strætó um strætóferðir. Það er kominn strætó austur á Hornafjörð og það er til dæmis kominn strætó upp á Flúðir eða Laugarvatn. En strætóinn kemur klukkan hálffimm ef hringt er á hann, einu sinni á dag. Hver notar eina ferð á Selfoss klukkan hálffimm? Það er ekki sá sem fer í búðina og ætlar að koma heim aftur, hann þarf þá að gista. Ég veit að þetta eru bara fyrstu byrjunarskrefin en í þessum strætó er þá bara einn eða enginn, og hann kemur ekki ef ekki er hringt. Einn, að hámarki tveir, vegna þess að þetta verður ekki raunverulegur valkostur fyrr en þjónustan verður meiri eða íbúarnir fleiri. Það þarf að setja meiri fjármuni í þetta. En við megum aldrei gleyma því að einkabíllinn er fyrsti valkostur fólks í dreifbýli á Íslandi, líka öryggisins vegna þegar við horfum núna upp á fyrsta veturinn í tíu ár.

Á sama tíma og við erum að feta okkur hægt inn í almenningssamgöngur og ýta einkabílnum svolítið til hliðar aukum við álögur á þann hóp fólks sem býr á landsbyggðinni með því að hækka skatta á bensín og olíur óþarflega mikið að mínu viti, þrátt fyrir að ríkið þurfi auðvitað einhverjar tekjur.

Þá komum við að því sem ég ætlaði að enda á. Það komu upp hugmyndir um að til þess að koma fleiri verkefnum í gang ættum við að setja upp stórverkefnasjóð sem væri fjármagnaður með því að þeir sem keyra á extra góðum vegum, í gegnum jarðgöng eða eitthvað slíkt mundu borga örlítið meira fyrir þann vegpart. Hvar eru slíkar hugmyndir? Það væri áhugavert að fá þar fjármuni til að setja í stórverkefni á öllu landinu. Hvar eru hugmyndir um að fara í stórfellda útrýmingu á einbreiðum brúm á Hringveginum? Ég held að það séu 20 brýr frá Hvolsvelli austur á Hornafjörð svo dæmi sé tekið.

Tími minn er því miður búinn en það væri áhugavert að ræða frekar hvar (Forseti hringir.) þessa sér stað í samgönguáætluninni.