140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[19:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er verkefnið. Þetta er verkefni sveitarfélaganna annars vegar, umhverfisyfirvalda hins vegar og okkar sem stöndum að samgönguáætlun í þriðja lagi að samræma okkar áform þannig að þau myndi eina samfellda heild.

Varðandi hafnirnar er staðreyndin sú að þær eru greindar niður í nokkra flokka. Þar á meðal eru hafnir sem eiga að sinna sérþörfum. Hvort heldur er vegna útflutnings á áli þess vegna eða öðrum varningi sem hér er framleiddur er reiknað með að þær verði sjálfsaflandi, að þar komi fjármagn inn. Ég vék að þessu í ræðu minni fyrr í dag og hvatti einnig til þess að þarna yrði sýnd fyrirhyggja í áætlanagerð og að sveitarfélögin þyrftu jafnframt að geta búið við öruggt umhverfi, því að ekki má fara með hafnirnar og verkefni þeirra eins og fór með kvótann, að þegar hann var fluttur úr einu byggðarlagi í annað þá hrundi allt. Hið sama gæti gerst í höfnunum ef því væri að skipta. Þess vegna gilda langtímaáætlanir þarna og þá skipta sveitarfélögin og hafnirnar að sjálfsögðu miklu máli.

Varðandi Suðurlandsveginn sem hv. þingmaður vék að þá er hann á áætlun. Við gerum ráð fyrir að ljúka því að gera 2+1 veg á Hellisheiðinni á árunum 2013–2014 og síðan er ráðgert að ljúka veginum frá Hveragerði til Selfoss á árunum 2015, 2016 og 2017 og í beinu framhaldi af því kæmi brú yfir Ölfusá. Hins vegar hefur Vegagerðin bent á að það væri hugsanlega góður kostur að víxla áherslunum þarna, byrja á (Forseti hringir.) Ölfusárbrúnni fyrr vegna þess að hún er mannaflafrek, atvinnuskapandi, auk þess sem menn telja að núverandi (Forseti hringir.) Ölfusárbrú rísi ekki undir ýtrustu öryggiskröfum sem við gjarnan viljum gera.