140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[10:32]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fella úr gildi ályktun um málshöfðun gegn ráðherra frá 28. september 2010 og felur saksóknara Alþingis að afturkalla í heild ákæru útgefna með stefnu sem þingfest var fyrir landsdómi 7. júní 2011.

Þar með ályktar Alþingi að falla frá málshöfðun á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi.“

Um rökstuðning fyrir þessari tillögu vil ég fyrst og fremst vísa til greinargerðarinnar sem liggur fyrir. Ég hyggst í stuttu máli rekja það helsta úr greinargerðinni og koma síðan að nokkrum öðrum álitaefnum sem hafa verið í umræðunni frá því að tillagan var lögð fram.

Þá er fyrst að nefna að Alþingi fer með málshöfðunarforræðið í þessu máli. Það er grundvallaratriði. Það kemur fram í 13. gr. laga nr. 3/1963, um landsdóm, að Alþingi geti með þingsályktun tekið ákvörðun um málshöfðun á hendur ráðherra og skulu kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í þingsályktuninni sem sókn málsins er bundin við. Í þessu samhengi er líka rétt að minnast þess að í ákærunni sjálfri kemur fram að saksóknari Alþingis höfði málið fyrir hönd Alþingis.

Það er ekki sérstaklega kveðið á um möguleikann á afturköllun ákæru í lögum um landsdóm. Hins vegar ber við túlkun á þeim lögum að horfa til laga um meðferð sakamála þeim til fyllingar og þar er kveðið á um heimild ákæranda til að afturkalla ákæru. Það hefur ekki alltaf verið svo. Í eldri lögum var ekki til staðar almenn heimild ákæranda til að afturkalla ákæru með þeim hætti sem í dag gildir, en í dag gildir sú meginregla að sá sem fer með ákæruvaldið getur afturkallað ákæru, ekki eingöngu eftir að ákvörðun um ákæru er tekin eða ákæra gefin út, ekki bara fram að því að mál er þingfest, ekki bara fram að því að málflutningur fer fram eða málið dómtekið, nei, allt þar til dómur hefur verið kveðinn upp er sá réttur í höndum þess sem fer með ákæruvaldið að kalla ákæruna til baka. Jafnvel eftir að dómur hefur dómtekið málið er þessi réttur til staðar í lögum um sakamál.

Nokkuð hefur verið tekist á um það hvort Alþingi hafi misst forræði á málinu eftir að það var afgreitt með þingsályktunartillögu haustið 2010. Ólík sjónarmið hafa tekist á um það, en ég tel að öllum skynsamlegum vafa, a.m.k. á lagalegum grundvelli, hafi verið eytt með því innleggi sem við höfum fengið frá vísum fræðimönnum um það efni. Ég leyfi mér að vísa til greinaskrifa Róberts Spanós um það efni, ég leyfi mér líka að vísa til greinaskrifa Stefáns Más Stefánssonar og Valtýs Sigurðssonar. Þeir eru allir í hópi okkar reyndustu lögfræðinga á þessu sviði. Loks vísa ég til þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á sakamálalögunum og svara því sem haldið hefur verið fram um fyrri ályktanir fræðimanna okkar um þessi efni vegna þess að þær komu fram í gildistíð eldri laga. Það er hafið yfir allan vafa að mínu áliti að Alþingi getur tekið þessa ákvörðun.

Ég leyfi mér líka í þessu samhengi að vísa til þess að það fékk sérstaka skoðun hjá forseta Alþingis hvort málið væri þingtækt af þessum sökum. Niðurstaðan var skýr og þess vegna er málið á dagskrá í dag.

Sumir halda því fram að þingið eigi ekki að skipta sér frekar af þessu máli eftir að ákæra var gefin út af saksóknara, það sé ekki bara í andstöðu við lög heldur einnig við aðrar meginreglur. Það hefur verið borið á mig og suma aðra þingmenn að þeir hafi gerst sekir um einhvers konar rökvillu með því að halda þessu fram um þetta mál þar sem þeir hafi haft uppi önnur sjónarmið í öðrum málum og málinu líkt við mál hinna svokölluðu níumenninga. Það er sá grundvallarmunur á þessu máli og því máli sem var þá til umræðu að í því máli fóru alþingismenn ekki með ákæruvaldið. Ákæruvaldið í þessu máli er hjá þinginu. Það er það sem gerir þetta mál svo sérstakt.

Þess utan hefur því oft verið haldið fram í umræðu um þessa tillögu að það væri óeðlilegt með öllu að þingið hefði nokkur afskipti af því hver framgangur málsins væri eftir að þingsályktunartillagan hafði verið afgreidd haustið 2010. Þá er nærtækt að skoða greinargerðina með lögum um landsdóm frá 1963 — og eigum við ekki í þessu samhengi einnig að minnast minnisblaðs um starfssvið saksóknarnefndar Alþingis? Væri ekki ágætt fyrir þá sem halda því fram að það sé með öllu óeðlilegt að Alþingi hafi nokkur afskipti af málinu eftir að það hefur verið afgreitt héðan að rifja upp það ágæta minnisblað? Það byggir nefnilega á því að við komum á fót sérstakri saksóknarnefnd. Ég minni þá sem hafa haldið því fram að það væri óeðlilegt að þingið hefði nokkur afskipti af málinu á þessu stigi á það. Ég ætla að lesa örstutt upp úr minnisblaði um starfssvið saksóknarnefndar Alþingis. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sé litið til þess sem þegar hefur komið fram auk almenns málskilnings virðast frumskyldur saksóknarnefndar annars vegar vera þær að hafa eftirlit með því að saksóknari framfylgi ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra og hins vegar að veita honum þá hjálp sem hann þarf á að halda til þess að honum sé fært að annast þau verk sem honum eru falin með lögum og ákvörðun Alþingis. Þá virðist ætlun löggjafans hafa verið að saksóknari gæti borið einstök atriði er varða starf hans undir saksóknarnefnd auk þess sem hann gæti leitað ráða hjá henni ef þörf krefði.“

Þetta eru reglurnar, virðulegi forseti, sem við komum okkur saman um, þ.e. að saksóknari gæti leitað ráða hjá þingmönnum ef þörf krefði. Var einhver sem hreyfði andmælum við því að reglurnar yrðu settar með þessum hætti? Hefur einhver á fyrri stigum málsins haldið því fram að þetta væri óeðlilegt? Nei, ég kannast ekki við það. Það er vegna þess að þetta er eðlilegt. Það er eðlilegt að sá sem fer með ákæruvaldið eigi samtal við þann sem framkvæmir vilja þingsins. Þessum hluta ræðu minnar ætla ég að ljúka með því að minna á að það hefur komið fram hjá saksóknara að verði það skýr vilji þingsins að draga ákæruna til baka muni hann að sjálfsögðu verða við því. Saksóknari Alþingis í málinu hefur líka tekið afstöðu til þess hvort þetta sé mögulegt.

Um önnur efnisatriði tillögunnar vísa ég eins og áður segir til greinargerðar með henni, en þar ber sérstaklega að horfa til þess sem gerst hefur allt frá því að tillögur um ákærur á hendur ráðherrum voru lagðar fram á þinginu. Þá vísa ég í fyrsta lagi til þess að það hefur margítrekað komið fram hjá þeim þingmönnum sem sátu á Alþingi á þeim tíma að þeir væru ósáttir við niðurstöðuna og eins og menn hafa tekið eftir á undanförnum dögum telja margir að hún hafi beinlínis verið í andstöðu við meirihlutavilja þingsins, þ.e. að ef sú spurning hefði verið borin undir þingheim að ákæra einn af fyrrverandi ráðherrum eru viðkomandi þingmenn sem þó tóku þátt í því að greiða atkvæði með ákæru þeirrar skoðunar að það hefði ekki verið meiri hluti fyrir því. Meðal annars af þeirri ástæðu legg ég fram þessa tillögu. Ég hef sem sagt fundið fyrir því að á meðal þingmanna hafa orðið sinnaskipti. Mönnum þykir ranglæti á ferð, að réttlætinu hafi ekki verið fullnægt við endanlega afgreiðslu málsins. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það hvernig það gerðist í þingsal, það muna þeir sem hér sátu og þeir sem fylgdust með.

Það ber líka að horfa til þess að fyrir landsdómi hefur veigamestu ákæruliðunum nú verið vísað frá dómi. Eftir standa ákæruatriði sem ég fullyrði að hefðu ein og sér aldrei komið til álita til að kalla saman landsdóm í fyrsta sinn í sögunni. Ein og sér hefðu þau aldrei komið til álita sem slík, það fór aldrei á milli mála við meðferð málsins í þinginu að þau atriði sem nú hafa verið felld út úr málinu voru meginákæruatriðin. Af þessari ástæðu er ég þeirrar skoðunar, og það er meðal rökstuðnings fyrir þessu máli, að það hafi orðið ákveðinn forsendubrestur. Tillagan byggir meðal annars á því.

Í fyrstu liðum ákærunnar, eins og segir í greinargerð með tillögunni, var vísað til þeirra ráðstafana varðandi aðdraganda fjármálaáfallsins sem gagnrýndar höfðu verið og lutu almennt að störfum ákærða sem forsætisráðherra á umræddu tímabili. Það standa eftir tilteknir ákæruliðir sem varða afmarkaðar aðgerðir og þar er meðal annars um að ræða eftirlit með tilteknum samráðshópi stjórnvalda. Ég bið þingmenn að hugleiða hvort það hefði komið til álita í þeirra huga á sínum tíma að ákæra ráðherra fyrir að hafa ekki haft eftirlit með samráðshópi. Ég bið þingmenn um að hugleiða mjög alvarlega hvort það hefði virkilega komið til greina að ákæra vegna þess liðar sérstaklega og kalla saman landsdóm í fyrsta sinn af því tilefni. Ég trúi ekki öðru en að menn komist að þeirri niðurstöðu að það hefði verið fráleitt að efna til slíkra málaferla af þeirri ástæðu.

Það er líka ágætt að hugsa til aðgerða sem hefðu átt að stuðla að minnkun bankakerfisins á árinu 2008 og flutningi svokallaðra Icesave-reikninga í dótturfélög í Bretlandi. Við skulum staldra við það atriði, að ákæra ráðherra fyrir að hafa ekki stuðlað að flutningi Icesave-reikninganna til Bretlands. Að hverju er látið liggja hér? Að þeir hafi verið á ábyrgð íslenska ríkisins? Að með því að flytja reikningana ekki yfir til Bretlands kynni einhvers konar ábyrgð að falla á íslenska ríkið eða íslenska skattgreiðendur? Er verið að láta að því liggja með þessum ákærulið? Það er þá gjörsamlega á skjön við málflutning íslenskra stjórnvalda fyrir EFTA-dómstólnum í dag þar sem sérstaklega er byggt á því að reikningarnir sem hér er rætt um hafi aldrei verið á ábyrgð íslenska ríkisins. Þegar menn taka afstöðu til þessa ákæruliðar þurfa þeir að gera það upp við sig hvort þeir eru þeirrar skoðunar að Icesave-reikningarnir og það hvort þeir voru vistaðir í Landsbankanum á Íslandi eða í dótturfélagi á Bretlandi séu það atriði sem ráði úrslitum um stöðu íslenska ríkisins og þar með íslenskra skattgreiðenda. Menn geta ekki skotið sér undan því að taka afstöðu til þessa liðar. Þeir sem eru þeirrar skoðunar að það sé réttlætanlegt að ákæra ráðherra fyrir að hafa ekki gripið til aðgerða vegna þessa hafna um leið málflutningi Íslendinga fyrir EFTA-dómstólnum, það er mín skoðun.

Ég ætla ekki að rekja aðra ákæruliði sérstaklega, ég tel eins og áður segir að það hafi ekki bara komið í ljós að menn hafi almennt verið ósáttir við heildarniðurstöðuna, hún hafi verið í ósamræmi við skýran meirihlutavilja þingsins, heldur er einnig mikilvægt að margt hefur komið í ljós frá því að Alþingi tók ákvörðun um ákæru sem sýnir að margar af þeim ákvörðunum sem teknar voru haustið 2008, í ríkisstjórnartíð fyrrverandi forsætisráðherra, hafa skipt sköpum fyrir framgang mála á Íslandi og bjargað gríðarlegum hagsmunum fyrir íslenska ríkið og íslenska skattgreiðendur. Til þessa hljótum við líka að horfa þegar við fáum það heildarsamhengi á hlutina sem við höfum í dag en höfðum kannski ekki á þeim tíma sem málið var til umræðu. Vísa ég þar til dóma Hæstaréttar (Forseti hringir.) og almennt umræðunnar í því efni.

Ég læt máli mínu lokið með því að vísa að öðru leyti til greinargerðarinnar með tillögunni. Ég legg til að málið gangi að umræðu lokinni til saksóknarnefndar sem er að mínu áliti eini rétti vettvangurinn fyrir málið til að fá frekari umfjöllun. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki fastanefnd sem að jafnaði skilar nefndaráliti, en það er engu að síður rétti vettvangurinn fyrir þetta mál og hún þyrfti að hafa hæfilegan tíma til að koma saman áður en málið kemur hingað aftur til síðari umr.