140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[10:52]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hræddur um að veruleikaskyni einhverra annarra en mín sé viðbrugðið í dag. Það segir hér, hv. þingmaður, með leyfi forseta, og er haft orðrétt eftir verjanda Geirs H. Haardes í Tímariti lögfræðinga:

„Eftir að Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um málshöfðun og kosið saksóknara Alþingis, varamann og þingnefnd er málið úr höndum Alþingis. Alþingi getur ekki eftir það afturkallað málssókn, hvorki hið sama þing né nýskipað.“

Þetta skrifaði Andri Árnason, verjandi Geirs H. Haardes, um ráðherraábyrgð og landsdóm í grein í tímarit Lögfræðingafélagsins haustið 2009.

Eins og annað í málflutningi hv. þingmanns þá eru þar tóm öfugmæli á ferðinni í því sem hann segir. Hann barðist, og hans flokkur, gegn því að mál níumenninganna kæmi á dagskrá þingsins og þingið mundi taka afstöðu til þess hvort það brygðist við í því máli. Sú útskýring að það skipti einhverju máli hver er saksóknari í málinu. Það er eitt að tala um það, annað að berjast gegn því að mál komist á dagskrá þingsins og það er greinilega ekki sama Jón og séra Jón og ekki sama um hvaða mál er að ræða.

Það kom líka skýrt fram, í svari hv. þingmanns við öðru sem ég tæpti á, að hann er kominn algerlega í hring í röksemdafærslu og það er óboðlegt fyrir Alþingi að taka þetta mál á dagskrá. Þó að það sé komið á dagskrá er náttúrlega skömmin forseta þingsins og skömmin er Alþingis. Við því er ekki hægt að gera neitt héðan af nema vonandi að málinu verði vísað frá við lok umræðunnar seinna í dag. Það verða farsæl endalok á því.