140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrr. forsætisráðherra.

403. mál
[11:01]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í þessari umræðu sakna ég þess að þeir sem gera athugasemdir við að málið fari til saksóknarnefndar komi með sterk málefnaleg rök gegn því, þ.e. að það sé óeðlilegt vegna eðlis starfa nefndarinnar, málefnaleg rök … (Gripið fram í.) Já, gott og vel, menn geta nefnt þingsköpin en þá væri rétt að hv. þingmenn mundu um leið geta þess hvar þeir teldu að málið ætti heima samkvæmt þingsköpum. Það væri málefnalegt. En það er ekki málefnalegt innlegg, sérstaklega ekki frá þeim sem hafa fyrst og fremst talað fyrir því að málið megi ekki koma hingað á dagskrá, að mæla gegn því að málið fari til saksóknarnefndar. Henni var þó komið sérstaklega á fót og var skipuð lögum samkvæmt til að fjalla um ákærumálið sem við ræðum. Eðli málsins samkvæmt á það hvergi betur heima en í saksóknarnefnd. Þess vegna er tillaga mín að málið fari þangað. Þeir sem telja að það eigi ekki heima þar ættu að koma hingað upp og segja hvar annars staðar það ætti heima samkvæmt þingsköpum og gera tillögur í því efni en þeir gera það ekki vegna þess að þeim er bara umhugað um eitt, þ.e. að vilji þingsins komi ekki fram í þessu máli.