140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrr. forsætisráðherra.

403. mál
[11:04]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir kröfu hv. þm. Marðar Árnasonar að úr því verði skorið hið allra fyrsta hvort eðlilegt sé að þessu máli, sem við ættum náttúrlega fyrir það fyrsta alls ekki að vera að ræða hér þar sem það er ekki þingtækt að mínu mati, verði vísað til saksóknarnefndar. Ég á sæti í þeirri nefnd. Frá því að við byrjuðum að starfa í þeirri nefnd hefur það verið kristaltært að okkar hlutverk er að fylgjast með ferli máls, en á engan hátt að taka efnislega afstöðu eða ræða um efni máls. Ég tel það algerlega fráleitt og bendi þar einnig á þingsköp, að þessu máli verði vísað til saksóknarnefndar og vil fá úr því skorið hið fyrsta hvort það gæti talist eðlilegt.

Saksóknarnefnd er falið að fjalla um ferli máls en ekki efnisatriði.