140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst eins og þeir sem hafa komið upp og gert athugasemdir við þá tillögu að vísa málinu til saksóknarnefndar hafi eiginlega sjálfir fært rök fyrir því að málið eigi að fara þangað þar sem nefndin byggir að sjálfsögðu á sérlögum sem lúta að landsdómi og er sérfræðinganefnd varðandi mál er snerta hann.

Meðal annars hefur verið nefnt að nefndin eigi að framfylgja því sem Alþingi ákveður. Það hlýtur þá að vera, ef Alþingi ákveður að vísa þessu til nefndarinnar, að hún þurfi að taka málið upp. Ég held að menn eigi að halda ró sinni yfir þessu. Forseti mun að sjálfsögðu úrskurða í þessu máli af því að eftir því hefur verið óskað. Ég vil mælast til þess, ef ástæða er til, að hlé verði gert á þingfundi á eftir þannig að menn geti sest yfir málið eða forseti tekið sér tíma ef á þarf að halda. Fyrir mér er málið algerlega skýrt. Þessi nefnd getur tekið málið til sín og það á að sjálfsögðu að fara þangað.