140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:20]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að vitna í þá rökstuddu dagskrártillögu sem ég stend að ásamt þingmönnunum Eygló Harðardóttur, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og Birgittu Jónsdóttur, en þar segir:

„Alþingi fer með ákæruvald í málum vegna embættisbrota ráðherra. Ákvörðun þess sem fer með almennt ákæru- eða saksóknarvald um að fella niður ákæru verður að byggjast á málefnalegum rökum. Þetta leiðir af grunnreglum stjórnsýslunnar. Alþingi er á sama hátt bundið af sjónarmiðum um málefnalegar forsendur. Niðurfelling ákæru mundi fyrst og fremst eiga við ef í ljós kæmi að við útgáfu ákæru hefði verið byggt á röngum forsendum í grundvallaratriðum eða fram kæmu nýjar upplýsingar sem röskuðu grundvelli máls.

Ákæruvaldi Alþingis í málum vegna meintra brota ráðherra í embætti er þannig fyrir komið að eftir að þingið hefur ákveðið að gefa út ákæru er áframhaldandi umsjón saksóknarvaldsins falin saksóknara þingsins. Verði slíkur saksóknari þess áskynja að málshöfðun sé byggð á röngum forsendum í grundvallaratriðum væri honum rétt að beina því til þingsins að fella hana niður af þeim sökum.

Í því máli sem hér um ræðir hefur ekki orðið neinn sá forsendubrestur sem réttlætir að fallið verði frá málinu. Engin slík beiðni hefur borist, hvorki frá saksóknara Alþingis né landsdómi. Landsdómur hefur hins vegar hafnað með úrskurði kröfu um að vísa málinu frá í heild og standa því eftir fjögur atriði málshöfðunarinnar af sex óhögguð.“

Af framangreindum ástæðum leggjum við til að málinu verði vísað frá og næsta mál á dagskrá tekið fyrir. Í raun og veru er ekki miklu við þetta að bæta til að svara efnislega hv. þingmanni sem var hér í andsvari, en ég velti fyrir mér með hvaða hætti nefnd þingsins hyggist taka á málinu þegar það kemur til efnislegrar umfjöllunar. Erum við í raun og veru ekki að færa það sem á að gerast fyrir landsdómi inn í nefndarstörf þingsins?