140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:30]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú hefur það gerst sem maður mátti náttúrlega vita að mundi gerast þegar ákveðið var að taka þetta mál á dagskrá að málflutningur í þinginu er að breytast í réttarhald. Hér er farið að krefja þingmenn svara við því hvort þeir telji sakborning sekan eða saklausan í þessu máli. Þetta sýnir og sannar hversu óviðeigandi og óeðlilegt það er að Alþingi Íslendinga skuli yfirleitt standa í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Hinn pólitíski undirtónn í málinu er líka átakanlegur. Málið snýst í raun og veru ekkert um Geir H. Haarde. Málið snýst um allt aðra hluti. Ég harma það og lýsi fordæmingu minni á því að við skulum standa hér í þessum sporum og vera að flytja réttarhald inn í þingsali Alþingis. Réttarhöld eiga heima í dómsölum, ekki hér á þessum vettvangi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)