140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[11:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið mistök að atkvæðagreiðslan skyldi fara fram með þeim hætti sem hún fór fram. (Gripið fram í: Gerðirðu athugasemdir?) Nei. Kallað er fram í úr sal hvort sá er hér stendur hafi gert athugasemdir en það gerði hann ekki, en það er kannski vegna þess að undirritaður áttaði sig ekki á því hvað var að gerast.

Voru þetta mistök eða var þetta útpælt? Það er líka atriði sem nefnt hefur verið hér, ég kann ekki að útskýra það. En hvað hefur breyst? spurði hv. þingmaður. Ég tel að það hafi breyst að ákveðnum ákæruliðum var vísað frá landsdómi. Mikill vafi leikur á því hvort farið hafi verið eftir venjubundnum reglum réttarfars í atkvæðagreiðslunni og þingmenn hafa upplýst að þeir hefðu hugsanlega greitt atkvæði á annan hátt ef niðurstaða þessi hefði verið fyrirséð. Ég held að með því að hafa bara eina atkvæðagreiðslu hefði þetta getað farið öðruvísi.