140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrr. forsætisráðherra.

403. mál
[12:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Árla morguns sendi hv. þm. Björn Valur Gíslason eins konar skilaboð eða veganesti inn í þessa umræðu á bloggsíðu sinni þar sem segir meðal annars, með leyfi virðulegs forseta:

„Dagurinn í dag gæti verið dagurinn sem við ákveðum að hætta við að gefa þjóðinni tækifæri til að búa til nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Dagurinn í dag gæti verið dagurinn sem við hættum við að koma okkur upp réttlátu kosningakerfi. […] Dagurinn í dag gæti boðað nýtt upphaf – eða endi.“

Nú vil ég biðja hv. þingmann um að útskýra þetta aðeins betur en hann gerði það ekki í ræðu sinni. Mér sýnist að hv. þingmaður sé í raun og veru að færa þetta mál inn á aðrar brautir en ég hafði gert ráð fyrir. Ég hafði gert ráð fyrir því að þessi umræða snerist um efni tillögunnar, sem er að afturkalla þessa tilteknu ákæru, en hv. þingmaður hefur greinilega aðra sýn á þetta og er að segja að þetta muni hafa miklu víðtækari pólitískar afleiðingar. Það muni þýða að ekki verði hægt að breyta stjórnkerfi fiskveiða, ekki verði hægt að búa til stjórnarskrá og þetta geti boðað einhvers konar endi. (Forseti hringir.)

Nú vil ég biðja hv. þingmann að útskýra betur (Forseti hringir.) þessa pólitísku dulsálarfræði sem hann leggur á borð í bloggsíðu sinni.