140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:18]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á hvort það fólst einhver spurning til mín í síðara andsvari hv. þm. Péturs Blöndals, en hvað um það. Hann fullyrti að þetta mál hefði alla tíð verið pólitískt. Ég er ósammála því. Ég tók ekki pólitíska afstöðu til þessa máls og ég efast um að þingmannanefndin hafi tekið pólitíska afstöðu til málsins. Ég sat ekki í þeirri nefnd en ég treysti formanni nefndarinnar til botns í því máli, algjörlega. (Gripið fram í.) Ég var sammála skýrslu hans í nefndinni, ég var sammála ræðu hans, hún var góð, sem ég vitnaði til áðan, og ég var sammála tillögu nefndarinnar. Ég treysti því fullkomlega að sú ágæta þingnefnd, þverpólitíska þingnefnd, hafi komist að faglegri niðurstöðu rétt eins og rannsóknarnefnd Alþingis.

Málið er ekki pólitískt, þessi dómstóll er að sjálfsögðu hluti af dómskerfinu, hann starfar samkvæmt tilteknum lögum. Það er ekki Alþingi sem ákvað að setja þennan dómstól á laggirnar haustið 2010, þessi dómstóll var fyrir hendi. Hann starfar samkvæmt tilteknum lögum (Gripið fram í.) og Alþingi tók ákvörðun um (Forseti hringir.) að höfða mál samkvæmt þeim.