140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er erfitt að svara andsvörum sjálfstæðismanna í dag því að þeir bera ekki upp neinar spurningar. Þeir halda umræðunni áfram, (Gripið fram í.) allt í fína með það, við spjöllum bara saman hérna eitthvað inn í hádegið.

Það er hárrétt sem hv. þm. Bjarni Benediktsson segir, að rannsóknarnefnd Alþingis tók ekkert sérstaka afstöðu til mála, en hún kom með ábendingar, t.d. varðandi ráðherraábyrgð, (Gripið fram í: Nei.) leiddi fram ákveðna þætti. (Gripið fram í.) Það er hægt að lesa fyrsta bindi rannsóknarskýrslu Alþingis og finna því öllu saman stað þar. Það var þingmannanefndin sem á grundvelli skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis gerði tillögu til þingsins, það var nákvæmlega það sem ég sagði áðan. Á grundvelli þeirra tillagna tók Alþingi ákvörðun um að setja málið í þann farveg sem það er í í dag, haustið 2010 gerði Alþingi það með 33 atkvæðum gegn 30. Ég er ósammála því að taka málið úr þeim farvegi. Ég sé enga ástæðu til þess. (Forseti hringir.) Það eru engin efnisleg rök til þess, það hafa engar grundvallarbreytingar orðið á eðli málsins (Forseti hringir.) að ástæða sé til að breyta því.