140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:29]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Ég vil lýsa því yfir í upphafi að ég tel þetta mál ekki þingtækt af ýmsum ástæðum sem þegar hafa komið fram og komu fram strax í upphafi þegar málið var lagt fram og vísa ég þá til lærðra manna, Gunnars G. Schrams, Ólafs Jóhannessonar og sjálfs verjanda Geirs H. Haardes, um að Alþingi megi ekki og geti ekki skipt sér af þessu máli héðan í frá.

Hæstv. forseti Alþingis hefur hins vegar ákveðið að taka þetta mál á dagskrá sem ég tel ranga ákvörðun og afleita fyrir Alþingi Íslendinga, og því neyðumst við til að ræða þetta enn einu sinni. Vegna þessa langar mig að rifja upp nokkur meginatriði þessa máls þar sem tillagan sjálf er ekki þingtæk heldur vil ég ræða efnisatriði málsins eins og það var lagt hér fram á sínum tíma.

Málið var lagt fram sem tillaga til þingsályktunar um málshöfðun gegn ráðherrum og þar segir, með leyfi forseta:

„a. Fyrrverandi forsætisráðherra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Geir Hilmari Haarde … til heimilis að Granaskjóli 20, Reykjavík.“

Kæruatriði eru:

„A. Málið er höfðað á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, aðallega fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, en til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.“

Í fyrri hluta kæruatriðanna segir, með leyfi forseta:

„Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.

Fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.

Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.

Fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.

Fyrir að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.

Framangreind háttsemi þykir varða við b-lið 10. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.“

Í II. kafla ákærunnar segir, með leyfi forseta:

„Fyrir að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum. Var þó sérstök ástæða til þess, einkum eftir fund hans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesens og formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008, eftir fund hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur með bankastjórn Seðlabankans 1. apríl 2008 og í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna sem undirrituð var 15. maí 2008. Forsætisráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né heldur gaf hann ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.

Þykir þetta varða við c-lið 8. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga.“

Það er augljóst að þessi ákæra er ekki gripin úr lausu lofti, hún á sér vel rökstuddar og málefnalegar ástæður og Alþingi Íslendinga tók tillit til þeirra við afgreiðslu málsins á sínum tíma.

Þingmannanefndin vísaði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og vann líka að rannsókn málsins sjálf. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir meðal annars um embættisfærslu fyrrverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, með leyfi forseta:

„Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að hinar alvarlegu upplýsingar um stöðu og horfur í málefnum íslensku bankanna og um leið í íslensku efnahagslífi sem urðu Geir H. Haarde forsætisráðherra tiltækar fyrstu mánuði ársins 2008 hafi gefið honum fullt tilefni til að hafa frumkvæði að því samkvæmt stöðu sinni og hlutverki sem forsætisráðherra að ríkisvaldið brygðist við þeim með sérstökum aðgerðum […] Að minnsta kosti verður talið að forsætisráðherra hafi við þessar aðstæður borið að kalla eftir frekari gögnum og upplýsingum og eftir atvikum tillögum um hvort nauðsyn væri á sérstökum aðgerðum …“

Þegar kemur að frumkvæði ráðherra að aðgerðum til að draga úr stærð bankakerfisins er það mat rannsóknarnefndarinnar að „í aðdraganda falls íslensku bankanna hafi í síðasta lagi á tímabilinu 7. febrúar til 15. maí 2008 verið komnar fram nægjanlegar upplýsingar til þess að forsætisráðherra hefði mátt gera sér grein fyrir því að ríkir almannahagsmunir knúðu á um að hann hefði þá þegar frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins, eftir atvikum með sérstakri lagasetningu, til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins.“

Ég gæti haldið lengi áfram, hæstv. forseti, en ræðutíminn er stuttur þegar þingsályktunartillögur eru ræddar og því ekki tími til að rifja upp málið frekar en ég bendi þingmönnum á að fara yfir þessi skjöl aftur.

Það hefur þegar komið fram að engin rökstudd ástæða er fyrir því að taka hér tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar til umræðu og það er fráleitt að þetta mál sé á dagskrá með tilliti til framangreinds. Að mínu viti er Sjálfstæðisflokkurinn að nota Alþingi sem fótaþurrku og lýsir ekkert betur fyrirlitningu flokksins á lýðræði og réttarríkinu og lögum en málflutningurinn í þessu máli. Það nægir að horfa til málsins sjálfs sem slíks en afstaða flokksins er skilgetið afkvæmi hugmyndafræðinnar sem hann hefur fylgt í mörg ár og áratugi og byggir á sérgæsku, sérplægni og eigingirni.

Það er sú hugmyndafræði sem olli hruninu og ber ábyrgð á því ásamt þingmönnum og ráðherrum flokksins undanfarin 20 ár hvernig komið er. Nú er þetta komið hér inn í þingsal einu sinni enn, það er verið að reyna að fría stjórnmálamenn ábyrgð á gjörðum sínum þrátt fyrir að þingmannanefnd Alþingis hafi komist að mjög vel rökstuddri niðurstöðu og að þingmenn hafi greitt atkvæði um að fara skuli fram með ákæru á hendur Geir H. Haarde með meiri hluta atkvæða. Það er búið að afgreiða málið úr þinginu, það er komið í rétt skipað ferli og ekkert nýtt hefur komið fram, eins og komið hefur fram í ræðum margra þingmanna, ekkert nýtt komið fram sem gefur tilefni til þess að ákæran verði afturkölluð.

Afstaða margra þingmanna sem ég heyrt af í þessu máli vekur með mér mikla undrun og ég skora á alla þá þingmenn sem hyggjast styðja þessa tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að velta því fyrir sér og lesa aftur þá kafla úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þá kafla úr greinargerðinni og úr tillögu til þingsályktunar sem kom fram frá þingmannanefndinni á sínum tíma. Það var mjög rækileg og vönduð yfirferð á öllu þessu máli og í þeim ræðum sem voru fluttar hér í þingsal í kjölfar framlagningar tillögunnar kom það mjög vel fram hjá þeim sem voru andsnúnir þeim ákærum að þeir höfðu mjög fáar og jafnvel engar málefnalegar ástæður til að greiða atkvæði gegn tillögunni.

Atkvæðagreiðslan fór á endanum eins og hún fór, að hluta til vegna þess að menn töldu sér ekki fært að greiða atkvæði gegn eigin félögum. Við í Hreyfingunni bentum á það alveg frá upphafi ferils málsins og skipan þingmannanefndar þegar við, sem áheyrnarfulltrúar í forsætisnefnd, lögðum til að einnig yrði skipuð nefnd utan þingsins sem gæfi álit sitt á því hvað bæri að gera hvað varðar ráðherraábyrgð í þessu máli. Því var alfarið hafnað af forsætisnefnd, því var alfarið hafnað af öllum fulltrúum í forsætisnefnd og við í Hreyfingunni máttum sæta miklum árásum frá nefndarmönnum forsætisnefndar á þeim tíma fyrir þá tillögu okkar að fá líka álit annars staðar að en eingöngu frá þingmönnum. Það og það eitt er skýrt dæmi um hversu Alþingi er í heild sinni orðið brogað og vanhæft í mörgum málum. Alþingi er búið að afgreiða þetta mál frá sér einu sinni, (Forseti hringir.) það er líka skömm að því að það skuli vera komið hér á dagskrá aftur.