140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi tvö svör. Mér fannst að þrátt fyrir að hann hafi í fyrra svari sínu hálfpartinn neitað þeirri spurningu hvort við værum að rétta yfir hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins um leið og við réttum yfir fyrrverandi forsætisráðherra, þá gat ég ekki annað skilið, miðað við það sem kom á eftir, en að hann liti svo á að það væri þannig. Enda er það algjörlega í samræmi við það hvernig hv. þingmaður hefur talað á Alþingi sem og í fjölmiðlum undanfarna mánuði og jafnvel undanfarin ár.

Um það hvort öll mál eigi að koma til afgreiðslu er ljóst að þetta mál fer ekki til afgreiðslu ef því verður vísað frá. Þar er einhver röksemdarvilla á ferðinni hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í: Það er afgreiðsla.) Það er afgreiðsla, er kallað utan úr sal, að hin eiginlega tillaga komi ekki til afgreiðslu, það er þannig og þá er ekki tekin afstaða.

Mig langar til að spyrja um það sem mér hefur þótt gæta æ meira í þeim málflutningi sem hv. þingmaður beitir í málum sem varða hrunið, en það er prinsippið sem var fundið upp á fjórða áratugnum í sambandi við það þegar lög ná ekki alveg yfir það sem hinir pólitísku valdhafar vilja, þ.e. að vísa í það sem við köllum vilja fólksins. (Forseti hringir.) Er þingmaðurinn að beita þessu prinsippi í þessu máli, er hann að vísa í vilja fólksins (Forseti hringir.) þegar þetta mál kemur (Forseti hringir.) til dómstóla?

(Forseti (SIJ): Forseti biður þingmenn um að virða ræðutíma.)