140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[12:46]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég byrji á síðari spurningu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar um vilja fólksins, þá kemur skýrt fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, í tillögu þingmannanefndarinnar og í ákærunni sjálfri að þar er verið að vinna í samræmi við lög. Það er ekki verið að vinna þar í samræmi við vilja fólksins heldur lög. Þannig var þetta mál samþykkt frá Alþingi á sínum tíma. (TÞH: Að þú værir að beita …) Ég er ekki að beita því, ég tók afstöðu í málinu algjörlega í samræmi við gögnin sem lágu frammi á þeim tíma.

Hvað varðar fyrra atriðið sem hv. þingmaður tæpti á um hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, þá er náttúrlega augljóst mál að ákvarðanir eða sérstaklega ákvarðanaleysi fyrrverandi forsætisráðherra Geirs H. Haardes er í algjöru samræmi við þá hugmyndafræði sem flokkurinn fylgdi, „laissez-faire“ eða „hands-off“ stefnuna. Við skiptum okkur ekki af því sem er að, markaðurinn sér um það, þetta sér um sig sjálft og við skiptum okkur sem minnst af því. Þegar sú stefna bíður svo skipbrot hafa þeir engin tæki eða tól til að bregðast við, enga hugsun til að bregðast við vegna þess að hún er ekki til. Viðbrögðin eru sjálfvirk, þau eru að bakka út í horn og gera ekki neitt. (TÞH: Þannig að við …) Það er ekki verið að rétta yfir þeirri hugmyndafræði en aðgerðaleysi fyrrverandi forsætisráðherra er skilgetið afkvæmi hennar og ber merki um að hún hafi ráðið ríkjum og að menn hafi einfaldlega ekki getað brugðist við af neinni skynsemi þegar á reyndi. Það er afleit stjórnun, það er óábyrgt og illa var staðið að málum. Það efast enginn um það. Þess vegna hefur þessi hugmyndafræði, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim, beðið skipbrot og endar vonandi á öskuhaug sögunnar.