140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[13:41]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég stíg hér upp fyrst og fremst til að þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í þessa mikilvægu umræðu. Hv. þingmaður, sem fór fyrir þingmannanefndinni sem lagði mat á niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndarinnar og það hvort tilefni væri til þess að ákæra einhvern af fyrrverandi ráðherrum, hefur sérstaklega góða og yfirgripsmikla þekkingu á þessu máli. Við hv. þingmaður vorum ekki sammála á sínum tíma um sakarmatið, en ég er honum innilega sammála um það hvaða áhrif þeir atburðir sem hér gerðust í atkvæðagreiðslunni hljóta að hafa á mat Alþingis sem ákæranda í þessu máli sem og þeir atburðir sem gerst hafa í millitíðinni, m.a. nú síðast þau greinaskrif sem hv. þingmaður vísar til.

Hafi einhver verið í vafa um að tilefni væri til þess að leggja fram þá tillögu sem ég (Forseti hringir.) hef mælt fyrir í dag ætti sá hinn sami að vera sannfærður eftir ræðu hv. þingmanns.