140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[13:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir mjög góða ræðu hér þar sem farið var vandlega yfir álitaefni okkar sem sátum í þingmannanefndinni. Sá sem hér stendur sat sannarlega í henni og var í þeim meiri hluta sem formaður þingmannanefndarinnar, Atli Gíslason, lýsti og komst að þeirri niðurstöðu að eftir faglega yfirlegu á flóknum lögfræðilegum viðfangsefnum væri það mat okkar að ákæra bæri fjóra ráðherra en engan ef ekki væri samstaða um það. Mér fannst, eins og hv. þingmanni, sú atkvæðagreiðsla sem hér fór fram breyta eðli málsins.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í þá hugmynd sem hann varpaði fram, að það hefði verið eðlilegt að kalla málið aftur (Forseti hringir.) til nefndar til að fjalla um annars vegar pólitíska ábyrgð og hins vegar hvort landsdómslögin giltu enn.