140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[13:44]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Herra forseti. Það vildi svo til á sínum tíma að þingmannanefndin hóf störf í janúar 2010 og frestaðist útkoma skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fram til 12. apríl þannig að nefndinni gafst ærið og vel þegið ráðrúm sem var mjög gott. Ætli við nefndarmenn höfum ekki verið þeir einu sem voru fegnir því að dráttur varð á skýrslunni vegna þess að við kortlögðum grundvöllinn sem við ætluðum að vinna eftir.

Ég tel og taldi það eðlilegt vegna þess að við hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson vorum með heildstæða tillögu, eina heildstæða tillögu, að þessi álitaefni yrðu skoðuð í nefndinni með sérfræðingum. Það álitaefni sem er uppi og Stefán Már Stefánsson vekur athygli á varðar ekki bara formhlið málsins, þ.e. að einn skyldi tekinn út úr, menn tala þá um jafnræðisregluna, heldur líka efnisþættina, hina efnislegu hlið málsins, og þó að formlegu hliðinni sé lokið fyrir landsdómi á landsdómur (Forseti hringir.) eftir að taka þessi málsákvæði til skoðunar efnislega.